„Ég er saklaus af þeim sökum sem á mig hafa verið bornar undanfarna daga. Ég hef alla mína ævi haft andstyggð á hvers kyns ofbeldi, staðið með fórnarlömbum þess og stutt baráttu þeirra í gegnum tíðina. Ekkert er fjær mér en að þröngva annarri manneskju til kynferðislegra athafna.“
Svona hefst stöðuuppfærsla á Facebook sem fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson birti í kvöld.
Í henni segist Logi Bergmann hins vegar vera sekur um að hafa farið yfir mörk í einkalífi fólks með því að hafa farið inn í herbergi sem hann átti ekki að fara inn í. „Það var taktlaust og heimskulegt og ég hef þegar tjáð viðkomandi að ég taki ábyrgð á því og mér þyki það leitt.“
Hann ætlar ekki að tjá sig meira um málið.
Ég er saklaus af þeim sökum sem á mig hafa verið bornar undanfarna daga. Ég hef alla mína ævi haft andstyggð á hvers...
Posted by Logi Bergmann on Thursday, January 6, 2022
Fyrr í dag var greint frá því á mbl.is. að Logi Bergmann, sem er annar umsjónarmanna Síðdegisþáttarins á K100, væri kominn í leyfi frá störfum hjá Árvakri, útgáfufélaginu sem rekur útvarpsstöðina, Morgunblaðið og mbl.is.
Hann er einn fjögurra manna sem Vítalía Lazareva hefur ásakað um kynferðisbrot. Hún setti fyrst fram ásakanir á hendur þremur mannanna: þeim Ara Edwald, Þórði Má Jóhannessyni og Hreggviði Jónssyni, á samfélagsmiðlum í lok október. Þeir eru allir valdamiklir í íslensku viðskiptalífi.
Málið vatt upp á sig á þriðjudag þegar Vítalía steig fram í viðtali við Eddu Falak í hlaðvarpinu Eigin konur og rakti það sem komið hefði fyrir hana.
Hún nefndi mennina ekki á nafn og setti auk þess fram ásökun á hendur öðrum manni vegna atviks sem átti sér stað síðar. Sá maður er Logi Bergmann.
Í dag hefur verið greint frá því að allir mennirnir fjórir sem Vítalía nefndi í stöðuuppfærslu sinni í október hafi stigið til hliðar úr störfum sem þeir gegna vegna málsins. Í frétt mbl.is segir að Logi Bergmann hafi svo lýst því yfir í upphafi daglegs síðdegisþáttar sem hann stýrir á K100 að hann væri á leið í leyfi. Hinn umsjónarmaður þáttarins, Sigurður Gunnarsson, spurði Loga hvernig hann hefði það og Logi svaraði:„ Ég hef verið betri, en við ætlum að gera hérna útvarpsþátt. Ég hendi einum þætti í loftið núna og svo fer ég kannski í smá frí og við sjáum bara til hvað gerist.“
Hægt er að lesa ítarlega umfjöllun Kjarnans um málið hér.