Arna Bryndís Baldvins McClure, sem hefur verið lögmaður sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja undanfarin ár, hefur látið af störfum sem kjörræðismaður Kýpur á Íslandi. Nafn hennar er ekki að finna lengur, hvorki á vef utanríkisráðuneytisins né á vef Félags kjörræðismanna.
Utanríkisráðuneytið segist, í svari til Kjarnans, ekki hafa upplýsingar um brotthvarf Örnu úr þessari stöðu, aðrar en þær að ráðuneytinu barst tilkynning 2. júní frá stjórnvöldum á Kýpur að kjörræðismaður þeirra á Íslandi hefði látið af störfum.
Arna Bryndís er einn þeirra starfsmanna og launaðra ráðgjafa fyrirtækisins sem kölluðu sig „skæruliðadeild“ Samherja í samskiptum sín á milli, en fjallað var um samskiptagögn innan úr Samherja í röð fréttaskýringa sem birtust í Kjarnanum undir lok maímánaðar.
Hún er einnig á meðal þeirra sex núverandi og fyrrverandi starfsmanna Samherja sem fengu réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara í fyrra vegna Namibíumálsins svokallaða.
Í málinu er grunur um að mútugreiðslur hafi átt sér stað, meðal annars til erlendra opinberra starfsmanna. Auk þess er grunur um brot á ákvæði almennra hegningarlaga um peningaþvætti og brot á ákvæði sömu laga um auðgunarbrot.
Staða Örnu sem kjörræðismanns Kýpur á Íslandi hefur vakið nokkra athygli, í raun alveg frá því að Namibíumálið kom upp á yfirborðið í nóvember 2019.
Það hefur sagt frá því að hún gegni þessari stöðu, ekki síst í samhengi við mikil umsvif Samherja á Kýpur og við það að meintar mútugreiðslur til namibískra áhrifamanna fóru frá dótturfélagi Samherja til heimilis á Kýpur og inn á reikning í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.