Umboðsmaður Alþingis hefur fengið svör frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, eftir að hafa óskað nánari skýringa á þeirri ákvörðun lögreglustjóra að banna börnum yngri en 12 ára að ganga upp að gossprungunni í Meradölum. Umboðsmaður segist nú vera að meta „framhald málsins“, samkvæmt því sem segir á vef embættisins.
Þar er svar lögreglustjórans á Suðurnesjumbirt, en í því koma fram svör við þeim spurningum sem umboðsmaður Alþingis lagði fyrir embættið í kjölfar þess að ákvörðun um að banna börnum yngri en 12 ára að ganga að gosstöðvunum var tekin á fundi þann 9. ágúst. Fram kemur í svari embættisins að lögreglustjóri geri ráð fyrir því að það sé vilji löggjafans að beita vægara eða mildara úrræði, sem barnabannið hafi verið, í stað þess að loka svæðinu alfarið fyrir almenningi.
Auk þess að spyrja út í lagagrundvöll ákvörðunar lögreglustjórans vildi umboðsmaður fá að vita hvaða gögn, upplýsingar og röksemdir lágu til grundvallar því mati að rétt væri að takmarka aðgengi barna yngri en 12 ára að svæðinu í Meradölum.
Farið er yfir þessi atriði í svari lögreglustjórans, en þar segir að ákvörðunin hafi verið reist á 23. gr. laga um almannavarnir, sem heimili lögreglustjóra meðal annars að hindra umferð um ákveðin svæði þegar hættu ber að garði.
Lögreglustjóri segir einnig að allt frá upphafi gossins hafi viðbragðsaðilar verið efins um að rétt væri að hleypa foreldrum með ung börn inn að gosstöðvunum, þar sem um langa og torsótta leið væri að ræða, auk þess sem engan veginn væri hægt að tryggja loftgæði nær eldstöðvunum og þar með öryggi barna.
Í svarinu kemur jafnframt fram að börn hafi minna þol gagnvart loftmengun og séu í því tilliti skilgreind sem viðkvæmur hópur sem ekki sé ráðlegt að dvelji lengur en 15 mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum. Lögreglustjóri segir að horft hafi verið til sjónarmiða landlæknis hvað þetta varðar við ákvörðunina um barnabannið, þó að það hafi ekki verið sérstaklega tekið fram í fyrstu tilkynningu til fjölmiðla.
Á fyrstu dögum gossins segir lögreglustjóri að tíð afskipti viðbragsaðila af foreldrum með ung börn hafi verið mikið áhyggjuefni. „Vakti athygli að fjölskyldur voru oft engan veginn í stakk búnar til að ganga upp að gosinu. Í flestum tilfellum var um að ræða erlenda ferðamenn. Fréttaflutningur, ljósmyndir, myndskeið og frásagnir reyndra íslenskra leiðsögumanna um erfiðar og lífshættulegar aðstæður barna inn á hættusvæði vakti athygli lögreglustjóra á ástandi sem þurfti tafarlaust að bregðast við,“ segir lögreglustjóri.
Í svarinu segir einnig að lögreglustjóri hafi það vandasama starf með höndum að tryggja öryggi almennings í almannavarnarástandi. „Hafi hann heimild lögum samkvæmt til að vísa á brott eða fjarlægja fólk í hættuástandi þá gerir lögreglustjóri ráð fyrir því að löggjafarvilji standi jafnframt til þess að hann beiti vægara og mildara úrræði á hættustund með þeim hætti sem gert var með hagsmuni barna að leiðarljósi, varnarlausum börnum undir 12 ára aldri, sem geta ekki annað en fylgt ákvörðunum foreldra sinna,“ segir í svari lögreglustjóra.
Þar segir einnig að er aldursmörkin voru ákvörðuð hafi verið horft til líkamlegs og andlegs þroska barna.