Eiginmaður Guðnýjar Hansdóttur, stjórnarmanns í flugfélaginu PLAY, seldi hlutabréf í félaginu í síðustu viku í gegnum eignarhaldsfélag sem hann á tæpan þriðjungshlut í. Með sölunni minnkar eignarhlutur eiginmannsins í félaginu um 6,5 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef Kauphallar fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni á eiginmaðurinn 29,1 prósenta hlut í eignarhaldsfélaginu Dalía ehf., sem seldi tæplega 945 þúsund hluti í PLAY á 24 krónum á hvern hlut. Heildarandvirði sölunnar nam því um 22,7 milljónum króna, en með því minnkaði beinn eignarhlutur makans um 6,5 milljónir króna.
Dalía ehf. er tíundi stærsti hluthafi PLAY, með 3,01 prósenta eignarhlut og rúmlega 21 milljón hluti í félaginu. Eignarhlutur maka Guðnýjar nemur því tæpu prósenti af flugfélaginu núna eftir söluna. Áður en PLAY var skráð á hlutabréfamarkað var Dalía sjötti stærsti hluthafi þess, með um 22 milljónir hluta í félaginu.
Salan átti sér stað þegar hlutabréfaverð PLAY hafði hækkað nokkuð í síðustu viku var þá komið á sömu slóðir og á fyrstu dögum félagsins í reglulegum viðskiptum um miðjan júlí. Hlutabréfaverð í félaginu lækkaði svo hins vegar nokkuð samhliða nýrrar smitbylgju Delta-afbrigðis kórónuveirunnar og hélst það á bilinu 20-23 krónum á hlut frá síðari hluta júlí fram að 24. september.
Eftir kosningarnar hefur verðið á hlutabréfum í PLAY svo hækkað umtalsvert, en það var komið í 23 krónur á hlut eftir lokun markaða á þriðjudaginn 28. september. Verðið hefur svo haldið áfram að hækka eftir hlutabréfasölu Dalíu ehf., en það er nú komið upp í 27,2 krónur á hlut.