Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) vísaði í morgun frá kæru Ólafs Ólafssonar á hendur íslenska ríkinu. Dómurinn hafnaði með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs til réttlátar málsmeðferðar.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Kjartans Björgvinssonar á Facebook í dag en hann var formaður nefndarinnar á sínum tíma.
„Ef niðurstaðan hefði orðið kæranda í hag hefðu rannsóknarnefndir eins og við þekkjum þær líklega heyrt sögunni til. Rannsóknarnefndir verða því áfram úrræði sem Alþingi getur nýtt til að varpa ljósi á stóru málin í samfélaginu. Því má sannarlega fagna á afmæli lýðveldisins. Gleðilega þjóðhátíð,“ segir í færslunni.
Ólafur segir í yfirlýsingu að hann meti nú hvort hann kjósi að höfða mál á hendur ríkinu fyrir íslenskum dómstólum vegna framgöngu Rannsóknarnefndar Alþingis.
Sagði vinnu nefndarinnar vera „einhliða áras“ á sig
Kjarninn greindi frá því í júní 2019 að Ólafur teldi að niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans 2003, þar sem hann og viðskiptafélagar hans voru sagðir hafa blekkt íslenska ríkið, fjölmiðla og almenning, hefði vegið „alvarlega að orðspori mínu og æru án þess að ég hefði nokkurt tækifæri til að koma við vörnum eða nýta þau réttindi sem við teljum sjálfsagt að fólk, sem borið er þungum sökum af hálfu stjórnvalda, njóti.“ Hann kallaði vinnu nefndarinnar einnig „einhliða árás“ á sig.
Ólafur sendi kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu nokkrum mánuðum eftir að niðurstaðan var birt í skýrslu, eða í júlí 2017. Ólafur vildi meina að hann hefði ekki notið réttinda sem honum væru tryggð í Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem „umgjörð og málsmeðferð RNA hafi í raun falið í sér sakamál á hendur honum og jafngilt refsingu án þess að hann hafi notið nokkurra þeirra réttinda sem fólk sem borið er sökum á að njóta og er grundvöllur réttarríkisins“.
Ríkið, fjölmiðlar og almenningur blekktir
Niðurstaða nefndarinnar, sem skilaði skýrslu sinni í mars 2017, var að ítarleg gögn sýndu með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu. „Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.“
Auk þess sýndi skýrslan að síðari viðskipti á grundvelli ofangreindra leynisamninga hefði gert það að verkum, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson.
Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Íslensk skattayfirvöld telja að eigendur þess félags hafi verið bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, aðaleigendur Bakkavarar og stærstu eigendur Kaupþings fyrir hrun.
Samkvæmt tilkynningu sem nefndin sendi frá sér í aðdraganda þess að skýrslan var birt sýndu gögn málsins „hvernig íslensk stjórnvöld voru blekkt og hvernig rangri mynd af viðskiptunum var haldið að fjölmiðlum og almenningi. Á hinn bóginn bendir ekkert til annars en að öðrum aðilum innan fjárfestahópsins sem keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, S-hópsins svokallaða, hafi verið ókunnugt um leynisamningana og að þeir hafi staðið í þeirri trú að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur eigandi þess hlutar sem hann var skráður fyrir.“
Niðurstaðan vonbrigði
Tyge Trier, danskur lögmaður sem sótti málið fyrir hönd Ólafs, segir niðurstöðuna vera vonbrigði, að því er fram kemur í yfirlýsingu Ólafs vegna niðurstöðu MDE.
„Ég dreg þá ályktun að líta megi á ákvörðunina, sem einungis var tekin af þremur dómurum, sem aðvörun til íslenskra stjórnvalda að til staðar hafi verið alvarleg álitamál hvað mannréttindasáttmálann varðar, en einnig að til staðar hafi verið lagaleg úrræði sem ekki var látið á reyna. Kvörtunin er því ekki tekin til meðferðar. Í mínum huga er enginn vafi á að brotið hafi verið á rétti Ólafs til friðhelgi einkalífs og ætlaðs sakleysis,“ segir lögmaðurinn.
„Frá mínum sjónarhóli og með minn bakgrunn sé ég alvarleg álitamál tengd ákvæðum 6.2 og 8 í mannréttindasáttmálanum og einnig að efast megi um hvort raunhæfar leiðir hafi verið til staðar fyrir íslenskum dómstólum. Dómararnir í Strassborg hafa nú – byggt á merkilegum yfirlýsingum lögmanna íslenska ríkisins – staðfest að þær leiðir séu til staðar fyrir íslenskum dómstólum. Það er því nokkuð sem við þurfum að meta í framhaldinu. Mikilvægt er að Mannréttindadómstóllinn hefur í dag vakið athygli á þeim brotalömum sem Ólafur sýndi fram á og byggt á nærri 30 ára reynslu minni á þessu sviði, er mitt mat að brotið hafi verið á rétti Ólafs til einkalífs og til að vera talinn saklaus,“ segir hann enn fremur.
Í yfirlýsingunni kemur fram að Ólafur meti nú hvort hann kjósi að höfða mál á hendur ríkinu fyrir íslenskum dómstólum vegna framgöngu Rannsóknarnefndar Alþingis. „Ég mun meta þessa niðurstöðu, en áhugi minn á að reka mál fyrir íslenskum dómstólum er lítill að fenginni reynslu og tímanum sjálfsagt betur varið til uppbyggilegri mála,“ segir hann í yfirlýsingunni.