Ghislaine Maxwell hefur ákveðið að láta af andstöðu sinni við það að nöfn áttmenninga sem tengjast ásökunum Virginiu Roberts Giuffre um kynferðisbrot auðmannsins Jeffrey Epsteins gegn sér verði birt. Mennirnir átta tengjast einkamáli sem Giuffre höfðaði gegn Epstein árið 2015. Málinu lauk utan dómstóla með sátt.
Hin breska Maxwell var náin Epstein í fjölda ára og var í síðasta mánuði fundin sek um fimm brot, m.a. mansal stúlkna undir lögaldri. Hún á yfir sér 65 ára fangelsisdóm. Epstein hafði verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fjölda kvenna sem voru undir lögaldri á árinum 1994-2004. Hann var færður í gæsluvarðhald í fangelsi í New York en svipti sig þar lífi áður en málaferlin hófust. Yfirvöld reyndu að hafa hendur í hári Maxwell en hún fór huldu höfði mánuðum saman áður en hún var loks handsömuð í júlí 2020.
Maxwell hefur barist gegn því að nöfn áttmenninganna sem fjallað var um í dómsskjölunum í einkamáli Giuffre árið 2015 verði gerð opinber. En í bréfi sem lögfræðingar hennar sendu dómara í New York þann 12. janúar kemur fram að hún muni ekki halda þeirri andstöðu sinni til streitu. Í bréfinu kom fram að áttmenningarnir sem kallaðir voru „Doe“ 17, 53, 54, 55, 73, 93 og 151 í málaferlunum gegn Maxwell hafi allir eigin lögfræðinga og geti því sjálfir varist opinberun nafna sinna.
Lögmaður Guiffre krafðist þess í síðustu viku að nöfn áttmenninganna yrðu gerð opinber. „Nú þegar dómsmálinu gegn Maxwell er lokið þá er lítil ástæða til að halda vernd yfir þeim feikilega miklu upplýsingum um mansalshring Epsteins og Maxwell sem voru innsiglaðar í fyrra málinu,“ skrifaði lögfræðingur Guiffre í beiðninni.
En hverjir eru þessir átta karlar? Líklegt þykir að Andrew Bretaprins sé einn þeirra en Guiffre hefur nú höfðað mál gegn honum fyrir meint kynferðistbrot er hún var enn á unglingsaldri. Lögmenn Andrews hafa krafist þess að fá afhent gögn um geðheilsu Guiffre og halda því fram að minningar hennar um brotin sem hún ásakar prinsinn um sé „falskar“.
Tveir áttmenninganna hafa sagt dómnum að þeir leggist ekki gegn því að nöfn þeirra verði birt. Aðrir hafa sagt að opinberun á nöfnum þeirra muni valda þeim „óþægindum og skömm“. Allir voru mennirnir nefndir á nafn í einkamáli Guiffre á sínum tíma vegna tengsla sinna við Epstein og Maxwell eða báru vitni í því máli.
Guiffre segist hafa verið þvinguð af Epstein til að hafa kynmök við Andrew prins í þrígang. Hún var þá sautján ára gömul.