Hlutabréfaverð flugfélagsins PLAY er nú 23 til 37 prósentum hærra en útboðsgengi þess var eftir einn dag í reglulegum viðskiptum á First North markaðnum í Kauphöllinni. Með þessari verðhækkun raðar félagið sér í röð þeirra félaga sem hafa hækkað hraðast í verði eftir skráningu á hlutabréfamarkað á síðustu þrettán árum.
Samkvæmt grein sem Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland, skrifaði í síðasta hefti Vísbendingar hefur hlutabréfaverð nýskráðra félaga í Kauphöllinni að meðaltali hækkað um 8 prósent fyrsta daginn eftir frumútboð þeirra. Fyrir daginn í dag var hækkunin mest hjá TM, en eftir frumútboð félagsins árið 2013 hækkaði hlutabréfaverð þess um 33 prósent.
Næstmesta hækkunin átti sér stað hjá Íslandsbanka, en líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um hækkaði verð félagsins um fimmtung eftir fyrsta daginn í reglulegum viðskiptum. Verðhækkunin var einnig töluverð í kjölfar frumútboðs Arion banka og Haga, en þar nam hún 18 prósentum á fyrsta degi viðskipta.
Útboðsgengið hjá PLAY nam 20 krónum á hlut fyrir tilboð yfir 20 milljónum króna og 18 krónum á hlut fyrir tilboð undir 20 milljónum. Dagslokagengi PLAY er nú í 24,6 krónum á hlut, sem þýðir að ávöxtun þeirra sem fjárfestu á undir 20 milljónum í félaginu nemur heilum 37 prósentum.
Alls námu viðskipti með bréf í PLAY 794,3 milljónum króna og var veltan langmest af öllum félögum sem skráð eru í Kauphöllinni. Næstmesta veltan var með bréfum í Íslandsbanka, en hún nam 389,8 milljónum króna.