Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segist í samtali við Kjarnann treysta kjörstjórnum, bæði landskjörstjórn og yfirkjörstjórn að gera það sem þarf að gera varðandi skoðun á endurtalningu í Norðvesturkjördæmi. „Rétt skal vera rétt,“ segir hún.
„Maður fær ákveðið óbragð í munninn þegar maður skoðar og horfir yfir þetta. Eitt af því sem við höfum talið okkur til tekna og sem hefur verið framlag okkar á alþjóðavettvangi er þungavigt okkar í jafnréttis- og mannréttindamálum. Hluti af mannréttindum er að lýðræðislegar kosningar fari rétt fram og eins og þetta blasir við núna þá eru einhver ónot vegna þessa í manni.“
Hún segist jafnframt vona að málið rýri ekki ásýnd Íslendinga í málum sem þessum. „Það má ekki vera í þessu eitthvað vinahygli eða annað – eða slöpp framkvæmd. Það bara má ekki vera slök framkvæmd á umgjörð kosninga.“
Nauðsynlegt að fá hið rétta fram
Þorgerður Katrín segir að málið dragi fram umræðu um jafnt atkvæðavægi. Í grein sem þingmenn Viðreisnar rituðu í október 2020 kom fram sú skoðun að kosningarréttur manna mætti ekki vera skiptimynt á hinu pólitíska sviði. Atkvæðavægi landsmanna ætti að vera hið sama hvar sem þeir búa á landinu. Aðeins þannig yrðu þingmenn raunverulega þingmenn allra landsmanna. Það yki samkennd, skilning, samstarf og yfirsýn og ýtti undir að þeir ynnu að framfaramálum fyrir landið allt.
Hún nefnir í þessu samhengi umræðu um breytingu á stjórnarskrá. „Í stjórnarskrárvinnunni voru stjórnarflokkarnir ófáanlegir til að ræða að jafnt vægi atkvæða í stjórnarskrá. Það sýnir sig að þó að þetta snerti í dag einungis einhverjar kennitölur einstaklinga á milli kjördæma þá dregur þetta líka fram að það væri mikið einfaldara að hafa landið eitt kjördæmi – og þannig sjálfkrafa hefði einn maður eitt atkvæði.“
Hún ítrekar að þau í Viðreisn líti svo á að nauðsynlegt sé að fá hið rétta fram í þessu máli.
„Náttúrulega ótrúlegt að upplifa þetta“
Guðmundur Gunnarsson, oddviti framboðslista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, sagði í við RÚV í gær að kanna þyrfti betur hverskyns mistök hefðu orðið í talningu atkvæða í hans kjördæmi. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum kosninganna var Guðmundur inni á þingi sem jöfnunarþingmaður en eftir endurtalningu í gær komst hann ekki á þing.
„Þetta er náttúrulega ótrúlegt að upplifa þetta sem nýliði í þessu“ segir Guðmundur við RÚV. „Við vorum viðstödd þarna þegar úrslitin voru kunngjörð eftir endurtalningu. Þá kemur í ljós að þessi hringekja jöfnunarþingmanna fer að stað með þessum afleiðingum sem við höfum séð“.