Þann 13. október síðastliðinn voru 139 fangar að afplána óskilorðsbundna fangelsisrefsingu í fangelsum íslenska ríkisins. Auk þess afplánaði einn vararefsingu vegna fésekta og 15 sátu í gæsluvarðhaldi. Þeir sem sátu inni þann dag voru því samtals 155 talsins. Það eru um 86 prósent þeirra 180 dómþola sem eru að afplána óskilorðsbundna fangelsisrefsingu.
Hluti þeirra, alls 25 manns, afplánar hana utan fangelsa. Þetta kemur fram í svarið Fangelsismálastofnunar ríkisins við fyrirspurn Kjarnans um málaflokkinn. Kjarninn mun fjalla enn frekar um málaflokkinn næstu daga.
Meðalaldur fanga 33,5 ár
Heildarrefsitími allra þeirra sem hlotið hafa óskilorðsbundna fangelsisdóma í fyrra var 422 ár og tíu mánuðir. Tveimur árum áður, árið 2011, var heildarrefsitíminn 295 ár og átta mánuðir. Heildarrefsitími hefur því aukist um nálægt 43 prósent á tveimur árum, á sama tíma og biðlistar eftir afplánun lengjast dag frá degi. Heildarrefsitími þeirra sem afplána hefur aldrei verið meiri og bið eftir afplánun hefur aldrei verið lengri.
Meðalaldur þeirra fanga sem afplána nú í íslenskum fangelsum er 33,5 ár. Þeir hafa, að meðaltali, hlotið 4,1 árs langa dóma. Í fyrra voru 93 prósent þeirra sem sátu í fangelsi karlar. Einungis sjö prósent, alls 15 einstaklingar, eru konur.