Meirihluti fjárlaganefndar hefur hafnað beiðni Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, að unnið verði lögfræðiálit fyrir Alþingi um hvort vinnubrögð fjármála- og efnahagsráðherra, sem snýr að því að setja ÍL-sjóð í þrot, standist lög.
„Þau hafa ekki áhuga á því að fá slíkt álit,“ sagði Þorbjörg Sigríður í upphafi þingfundar í dag þar sem hún bað um orðið um fundarstjórn forseta.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því í síðasta mánuði að hann vildi semja við kröfuhafa ÍL-sjóðs um að þeir samþykki að gefa eftir hluta eigna sinna. Lífeyrissjóðir eiga um 75-80 prósent allra skuldabréfa sem útgefin eru af ÍL-sjóði og þeir þurfa því að taka mesta höggið, eigi tillaga Bjarna að ganga upp. Takist ekki að semja ætlar Bjarni að leggja fram frumvarp fyrir árslok sem felur í sér að ÍL-sjóði verði slitið á næsta ári, skuldir hans látnar gjaldfalla og með því myndi einföld ríkisábyrgð virkjast.
Bjarni hefur sjálfur látið vinna lögfræðiálit um þessa framkvæmd. „Þar er vísað í neyðarlögin sem blasir auðvitað við að eiga ekkert skylt við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi,“ sagði Þorbjörg Sigríður.
„Skraulegar og mjög kreatífar skýringar“
Hún segir að í fyrstu hafa verið vel tekið í ósk hennar um að lögfræðiálit yrði unnið fyrir þingið. „En síðan fóru að heyrast alls konar skrautlegar og mjög kreatífar skýringar, að Alþingi ætti kannski ekki fyrir lögfræðiáliti, hefði kannski ekki burði til að láta vinna svoleiðis álit og svo framvegis, það væri ekki tímabært að vinna álit þrátt fyrir að fjármálaráðherra hefði hótað lagasetningu um þetta mál fyrir áramót. Ég held að skýringin sé einfaldlega sú að meirihlutinn á Alþingi vill ekki fá þau svör sem slíkt lögfræðiálit myndi leiða í ljós,“ sagði Þorbjörg Sigríður.
ÍL-sjóður varð til á grundvelli laga sem samþykkt voru árið 2019, og skiptu Íbúðalánasjóði upp í tvennt. Hluti hans, sá sem snýr að fjármögnun á félagslegri uppbyggingu á húsnæði, færðist í nýja stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Skuldir og eignir vegna íbúðalána á almennum markaði, sem rekja má að mestu til skuldabréfaútgáfu á árinu 2004, voru sett í ÍL-sjóð. Skuldabréfin, sem eru með gjalddaga til 2044, eru ekki uppgreiðanleg en lánin sem sjóðurinn veitti eru það hins vegar.
Vandi ÍL-sjóðs er tilkominn vegna þess að íbúðalán bankans hafa verið greidd upp á miklum hraða, og eru nú einungis um 20 prósent af eignum sjóðsins, á meðan að enn þarf að þjónusta skuldabréfin. Áætlað er að tap vegna þessa fyrirkomulags verði að óbreyttu 200 milljarðar króna.
Ekki einn stjórnarþingmaður í þingsal
Fleiri stjórnarandstöðuþingmenn tóku undir með þingmanni Viðreisnar. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði málefni ÍL-sjóðs einnig snúast um orðspor og orðsporsáhættu.
„Ég vil benda á að við erum nýbúin að taka hérna við skýrslu frá Ríkisendurskoðun þar sem er sérstaklega hnýtt í bæði stjórnvöld og þingnefndir, það er meirihlutann í tveimur þingnefndum, fyrir að vanmeta orðsporsáhættu þegar teknar voru afdrifaríkar ákvarðanir um hagsmuni ríkissjóðs. Nú er svo sannarlega tilefni til þess að fjárlaganefnd taki þetta mál sem varðar ÍL-sjóð upp að eigin frumkvæði og látið vinna óháð lögfræðiálit fyrir brotabrot af þeim fjármunum sem eru undir í málinu sjálfu, athugum það, lögfræðiálit um þessi áform fjármálaráðherra um að setja ÍL-sjóð í þrot með lögum og varpa þannig kostnaðinum yfir á eigendur lífeyrissjóðanna,“ sagði Jóhann Páll.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði áhugaleysi stjórnarliða á starfi sínu sem snýr að sinna eftirlitshlutverki sorglegt. „Það er pínulítið átakanlegt að horfa á þingsalinn núna. Það er ekki einn þingmaður stjórnarflokkanna í salnum, ekki einn,“ sagði Helga Vala.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði það gjörsamlega óþolandi að þurfa að koma síendurtekið upp í pontu Alþingis til að ræða hvernig meirihlutinn valtar yfir minnihlutann í nefndum þingsins, sama um hvaða nefnd ræðir.
Fjárlaganefnd ekki formlega með neitt mál í höndunum
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, kom síðar upp í pontu og sagði nefndina ekki enn vera komna með neitt mál í hendurnar frá fjármála- og efnahagsráðherra.
Hún fór yfir það sem fram kom á fundi fjárlaganefndar. „Ég lét það líka fylgja þegar ég sagði þetta að ef við fengjum mál til okkar og þörf væri talin á því að fá eitthvert sérstakt álit umfram það sem við værum með í höndunum þá myndum við að sjálfsögðu verða við því. Leiðbeiningarnar eru þær því að við erum ekki formlega með neitt mál í höndunum. Skýrslu var skilað til Alþingis og hún er ekki til umfjöllunar inni í nefndinni sem slík.“
Jóhann Páll sagði formann fjárlaganefndar vera að hengja sig í formsatriði. „ Auðvitað getur nefndin tekið upp þetta mál að eigin frumkvæði og kallað eftir lögfræðiáliti.“