Þann 1. október síðastliðinn var búið að samþykkja deiliskipulag fyrir alls 3.104 íbúðir á ýmsum byggingarreitum í Reykjavíkurborg, án þess að þar væri búið að úthluta byggingarleyfum.
Þar af voru 1.228 íbúðir sem hugsaðar eru fyrir almennan markað á lóðum sem eru í eigu Reykjavíkurborgar, 1.190 íbúðir skipulagðar á lóðum í eigu einkaaðila sem ætla sér að byggja fyrir almennan markað. Til viðbótar voru 347 íbúðir skipulagðar á lóðum sem eru í eigu húsnæðisfélaga og 339 íbúðir fyrir húsnæðisfélög skipulagðar á lóðum Reykjavíkurborgar.
Þegar deiliskipulag hefur verið samþykkt geta eigendur lóða sótt um byggingarleyfi og komið framkvæmdum af stað og lætur borgin þess getið, í upplýsingabæklingi um húsnæðisuppbyggingu sem sendur var inn á heimili borgarbúa á þriðjudag, að hraði uppbyggingar sé að nokkru leyti í höndum einkaaðila, sem hafi meirihluta byggingarheimilda á sínum höndum.
Hluti þessara uppbyggingarverkefna er sagður í startholunum, en að sama skapi eru nokkur dæmi um að deiliskipulag á lóðum þar sem framkvæmdir voru ekki hafnar hafi verið samþykkt, jafnvel árum saman, án þess að lóðarhafar hafi ráðist í uppbygginguna sem fyrirhuguð er.
Rúmur helmingur á þremur nýjum uppbyggingarsvæðum
Þær fyrirhuguðu íbúðir sem samþykktar höfðu verið í deiliskipulagi þann 1. október, eru flestar á þremur nýjum uppbyggingarsvæðum í borginni; Vogabyggð, Skerjafirði og í nýjum áfanga Bryggjuhverfis. Þetta eru samtals yfir 1.800 af þeim 3.109 íbúðum sem taldar eru upp fram í samtalningu borgarinnar.
Samkvæmt því sem fram kemur í samantekt borgarinnar eru flestar íbúðirnar, alls 727, skipulagðar á því svæði sem kallað er Bryggjuhverfi III, eða samtals 210 íbúðir á tveimur reitum við Gjúkabryggju og 517 íbúðir á öðrum reitum á því svæði.
Í Skerjafirði var svo í sumar samþykkt deiliskipulag fyrir alls 685 íbúðir, um helmingur undir íbúðir sem koma til með að fara á almennan markað en hinn helmingurinn er á vegum húsnæðisfélaga. Félagsstofnun stúdenta, Bjarg íbúðafélag og HOOS, sem ætla að byggja hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, hafa þegar fengið vilyrði fyrir lóðum í fyrsta áfanga uppbyggingarinnar þar.
Í Vogabyggð, á reitum sem auðkenndir eru með númerunum I og II, eru svo samtals tæplega 400 íbúðir á deiliskipulagi sem ekki er enn búið að sækja um byggingaleyfi fyrir, 254 í fjórum fyrirhuguðum fjölbýlishúsum í Vogabyggð I og 142 í Vogabyggð II, en á því svæði eru nú þegar 620 íbúðir í byggingu, sem er dágóður skerfur af þeim alls tæplega 2.698 sem borgin telur að hafi verið í byggingu þann 1. október.
Stakir reitir innan um eldri byggð
Víða annarsstaðar í borginni er samþykkt deiliskipulag fyrir íbúðauppbyggingu í grónum hverfum. Við Háaleitibraut/Bolholt er til dæmis heimild fyrir byggingu 47 íbúða á sömu lóð og höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins standa á. Flokkurinn er sjálfur lóðarhafi og fékk þann 19. október úthlutuðu byggingarleyfi fyrir steinsteypt fjölbýlishús sem á að vera á 4-6 hæðum með bílakjallara, alls um 7.300 fermetrar.
Þá er heimild til þess að byggja 110 íbúðir í Sigtúni, á svokölluðum Blómavalsreit sem stendur fyrir aftan Grand Hótel. Uppbyggingaráformin þar eru á vegum Íslandshótela. Deiliskipulagið fyrir lóðina var auglýst árið 2015 en síðan þá hefur verkefnið lítið hreyfst.
Eins og Kjarninn sagði nýlega frá vonast forsvarsmenn Íslandshótela eftir því að uppbygging á reitnum hefjist snemma á næsta ári, en það er háð því hvernig fjármögnunarferlinu vindur fram. Stefnan er að byrja á að byggja íbúðir á því svæði sem stendur fjærst Grand Hótel á reitnum, en verkið er umfangsmikið og verður unnið í áföngum.
Á reit við Sjómannaskólann ætlar félagið Vaxtarhús að reisa um 60 íbúðir, sem byggðar verða sem hagkvæmt húsnæði fyrir fyrstu kaupendur. Við Snorrabraut 54 stendur síðan til að byggja 40 nýjar íbúðir, en sú uppbygging er á vegum Reir Verk ehf., sem er lóðarhafi. Þá liggur fyrir samþykkt deiliskipulag vegna byggingar tveggja nýrra húsa með samtals 43 íbúðum á horni Laugavegar og Vatnsstígs.
Húsnæðisuppbygging í Reykjavíkurborg hefur verið töluvert í umræðunni upp á síðkastið og líklegt er að svo verði áfram, þar sem borgaryfirvöld hyggjast fara yfir stöðuna á árlegum kynningarfundi í Ráðhúsinu á föstudaginn.