Sex stjórnmálaflokkar vilja hækka kolefnisgjald, sem til að mynda er lagt á innflutt bensín og olíu, til þess að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda en tveir flokkar vilja ekki hækka gjaldið. Þetta kom fram í nýjasta þætti Hvað getum við gert? á RÚV en í þættinum voru frambjóðendur stjórnmálaflokka spurðir um afstöðu flokksins til kolefnisgjalds.
Að mati þáttastjórnenda var svar eins flokks ekki nógu skýrt og því óvíst hvort Sjálfstæðisflokkurinn vilji hækka kolefnisgjald eða ekki.
Þau sem vilja hækka kolefnisgjaldið
Frambjóðendur sem komu fram fyrir hönd Viðreisnar, Pírata, Vinstri Grænna, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Sósíalistaflokksins sögðust vilja hækka kolefnisgjald.
Hanna Katrín Friðriksson frá Viðreisn sagði mikilvægt að kolefnisgjaldið lendi ekki harðast á þeim sem lægstar hafa tekjurnar og að gjaldið mismuni ekki fólki eftir búsetu. Eva Dögg Davíðsdóttir frá Vinstri grænum tók í sama streng og benti á að kolefnisgjald hefði verið hækkað þrisvar á kjörtímabilinu en það hefði verið skýr áhersla flokksins í stjórnarsamstarfinu. Þá sagði Andrés Ingi Jónsson frá Pírötum að kolefnisgjaldið ætti að leggjast á fleiri tegundir mengunar, til dæmis á stóriðju, til að endurspegla raunverulegan kostnað mengunarinnar.
Ásmundur Einar Daðason, fulltrúi Framsóknar, sagði flokkinn fylgjandi hækkun kolefnisgjalds og að hann vildi setja á laggirnar sérstakt loftslagsráðuneyti. Rósa Björk Brynjólfsdóttir frá Samfylkingunni sagði blöndu grænna ívilnana og kolefnisgjalda, sem flokkurinn vill hækka, vera góða og nauðsynlega. Katrín Baldursdóttir, fulltrúi Sósíalistaflokksins, sagði að hækka þyrfti kolefnisgjald sem og að taka völdin af stórfyrirtækjum sem ekki væri hægt að stoppa í kapítalísku efnahagskerfi.
Þau sem ekki vilja hækka gjaldið
Líkt og áður segir vilja tveir flokkar ekki hækka kolefnisgjaldið, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn. Ásthildur Lóa Þórsdóttir frá Flokki fólksins sagði að ekki væri hægt að réttlæta það að velta ábyrgð og kostnaði af losun yfir á almenning vegna þess að útblástur frá bílaumferð væri svo lítill hluti losunar. Hún sagði það ekki á færi allra að kaupa rafmagnsbíla og því myndi hækkað kolefnisgjald fyrst og fremst falla á þá sem minna hafa á milli handanna.
Karl Gauti Hjaltason frá Miðflokki tók í sama streng og sagði að frekar ætti að lækka kolefnisgjald heldur en að hækka það.
Þau sem ekki eru skýr
Líkt og áður segir mátu þáttastjórnendur svör Sjálfstæðisflokksins ekki nógu skýr. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sem mætti í þáttinn fyrir hönd flokksins sagði að vandi við skatta væri sá að þeir fjármunir sem eru innheimtir með skattheimtu yrðu ekki nýttir tvisvar. Atvinnulífið þyrfti að vera með í vegferðinni og vilji til þess væri þar til staðar. Aftur á móti þyrfti atvinnulífið að hafa svigrúm til að fjárfesta í nýrri tækni. Hún sagði að fólki og fyrirtækjum hefðu verið gert gert kleift að skipta yfir í orkuvænni kosti en að þá þyrftu þeir kostir að vera til staðar sem og næg raforka til þess að hægt sé að fjárfesta í þeim kostum.
Í áherslum flokksins í orku- og loftslagsmálum er það ekki sérstaklega nefnt hvort hækka eigi kolefnisgjald eða lækka en þar segir meðal annars að grænir skattar eigi ekki að hafa það markmið að auka tekjur hins opinbera. Grænir skattar eigi að vera tímabundið úrræði sem hættir að skapa tekjur þegar kolefnishlutleysi hefur verið náð. Það er nokkurn veginn í takt við tilgang kolefnisgjaldsins í dag.
Einn flokkur sem er í framboði var ekki með í þættinum en það var Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn. Í málefnaskrá flokksins sem finna má á heimasíðu hans er kolefnisgjald hvergi nefnt sérstaklega. Þar eru segir aftur að Íslendingar þurfi að bretta upp ermar í því verkefni að skipta út bensín og dísil bílum fyrir rafmangsbíla.
Kolefnisgjald geti dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis
Kolefnisgjald er ein þeirra aðgerða sem finna má í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, undir kaflanum „Hvatar til umskipta“ en kolefnisgjaldi er ætlað að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og þar með losun gróðurhúsalofttegunda.
Í umfjöllun um kolefnisgjald á vef stjórnarráðsins segir að það sé lagt á gas- og dísilolíu, bensín, brennsluolíu og jarðolíugas og annað loftkennt vetniskolefni og að það taki heildstætt á losun kolefnis frá jarðefnaeldsneyti, bæði frá samgöngum og öðrum uppsprettum.
Þar segir einnig að greining Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands bendi til þess að hægt sé að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis með því að leggja gjald á kolefni. „Gjaldið verður til þess að heimilin nota 1-2% minna af bensíni og olíu en ella. Hjá fyrirtækjum minnkar olíunotkun að jafnaði um 0,3% þegar olíuverð hækkar um 1%,“ segir á vef stjórnarráðsins um niðurstöður greiningarinnar.
Losun frá vegasamgöngum tvöfaldast frá 1990
Í lögum um umhverfis og auðlindaskatta er fjárhæð kolefnisgjaldsins tilgreind. Á hvern lítra af gas- og dísilolíu er kolefnisgjaldið 11,75 krónur, það er 10,25 krónur á hvern lítra af bensíni, 14,45 krónur á hvert kílógramm af brennsluolíu og 12,85 krónur á hvert kílógramm af jarðolíugasi og öðru loftkenndu kolvatnsefni.
Samkvæmt bráðabirgðatölum sem birtar eru á vef stjórnarráðsins voru tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldi tæpir 5,4 milljarðar árið 2019. Ári fyrr voru tekjurnar rúmir 5,3 milljarðar og hækkuðu mikið á frá árinu þar á undan en í upphafi árs 2018 var kolefnisgjaldið hækkað um 50 prósent. Líkt og áður segir er kolefnisgjaldið hugsað til þess að draga úr notkun fremur en að vera tól til tekjuöflunar. Þar af leiðandi er eðlilegt að tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldi hækki ekki línulega í takt við upphæð gjaldsins.
Helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands er frá vegasamgöngum. Samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar frá því fyrr á þessu ári var hlutfall hennar þriðjungur af heildarlosun sem fellur á beina ábyrgð Íslands árið 2019. Losun frá vegasamgöngum dróst saman um 19 kílótonn frá fyrra ári sem gerir um tvö prósent samdrátt. Árin þar á undan hafði losun frá vegasamgöngum aukist ár frá ári en á milli áranna 1990 og 2019 tvöfaldaðist losun frá vegasamgöngum hér á landi.