512 gnýir, 205 fílar, 381 sebrahestur, 51 buffalói, 49 grevy-sebrar, tegund sem er í útrýmingarhættu. Þessi dýr og tugir til viðbótar hafa týnt lífi í friðlöndum Austur-Afríkuríkisins Kenía á síðustu mánuðum. Hafa drepist úr hor eða ofþornað. Gríðarlegir þurrkar, þeir mestu í áratugi, geisa í landinu. Búfénaður hefur líka stráfallið og bændur hafa keppst við að selja frá sér grindhoraðar skepnur sem þeir geta ekki fóðrað eða útvegað vatn. Margar þeirra hafa drepist á leiðinni á markaðinn eða dregið sinn síðasta andardrátt þegar þangað er komið.
Þegar dýrin falla er stutt í hamfarir meðal manna.
Í skýrslu sem þjóðgarðastofnun Kenía sendi frá sér á föstudag birtist myrk mynd af ástandinu. Þurrkatímar eru tvisvar á ári í löndunum við miðbaug, en þegar þeir dragast á langinn, líkt og nú hefur gerst, er voðinn vís.
Á stórum svæðum í Kenía hefur vart fallið deigur dropi úr lofti í að verða tvö ár. Þetta hefur eins og gefur að skilja áhrif á allt vistkerfið og hríslast niður fæðupíramídann hraðar og hraðar eftir því sem þurrkarnir dragast á langinn.
Fyrst skrælnar gróðurinn. Svo þurrkast ár og önnur vatnsból upp. Dýrin fara að falla. Fyrst grasbítarnir. Svo rándýrin. Og manneskjur.
Fullorðinn fíll drekkur um 240 lítra af vatni á dag. Þá er að finna í mörgum friðlanda Kenía og í nokkrum þeirra allra vinsælustu, m.a. Amboseli-þjóðgarðinum, Laikipia-Samburu og Tsavo hafa þurrkað geisað mánuðum saman. Í Kenía eru aðeins um 36 þúsund fílar. Þeim stafar orðið meiri ógn af loftslagsbreytingum en veiðiþjófum, sagði Najib Balala, fyrrverandi ráðherra umhverfis- og ferðamála, landsins í viðtali við BBC í júlí.
Grípa þarf til neyðaraðgerða svo að horfellir verði ekki enn útbreiddari, segja samtök sem fylgjast vel með gangi mála. Stjórnvöld í Kenía segjast þegar hafa reynt að bregðast við, m.a. með því að bora eftir vatni og flytja vatn á tankbílum frá einu svæði til annars.
Þurrkarnir eru ekki bundnir við Kenía. Þeir geisa í öllum löndum hins svokallaða Horns Afríku, m.a. í Sómalíu og Eþíópíu. Þar búa átján milljónir manna við matarskort í augnablikinu.
Veðurstofnun Sameinuðu þjóðanna segir þurrkana þá lengstu á svæðinu í fjóra áratugi.