Ingvar Smári Birgisson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, hefur tilkynnt forsætisráðuneytinu um stjórnarsetu sína í Ríkisútvarpinu og „hafið samtal“ um hvort honum sé heimilt að sitja í stjórn félagsins. Hann gerir ráð fyrir að boða varamann í sinn stað á stjórnarfundi hjá Ríkisútvarpinu á meðan beiðnin er til meðferðar hjá ráðuneytinu.
Ingvar tók við af Teiti Birni Einarssyni sem aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra fyrir helgi. Teitur Björn, sem hefur verið Jóni til aðstoðar frá því í febrúar hefur verið ráðinn aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar, sem eru þá orðnir þrír talsins.
Síðast starfaði Ingvar sem lögfræðingur hjá Íslensku lögfræðistofunni, en hann lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2019 og fékk málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2019. Fyrr á þessu ári tók Ingvar sæti í stjórn Ríkisútvarpsins, tilnefndur af Alþingi.
Forsætisráðuneytið kannar hvort stjórnarsetan stangist á við lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum
Í samþykktum fyrir Ríkisútvarpið er fjallað um skyldur stjórnar og stjórnarmanna þar sem segir að stjórnarmenn skuli „forðast hvers kyns hagsmunaárekstra.“ Ingvar segir að ákvæðið meini honum ekki að sitja í stjórn Ríkisútvarpsins en til skoðunar sé hvort stjórnarseta hans stangist á við lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands. Í lögunum, sem tóku gildi í upphafi síðasta árs, segir að störf æðstu stjórnenda og aðstoðarmanna ráðherra teljist full störf. Þeim sé óheimilt að sinna aukastörfum samhliða störfum í Stjórnarráði Íslands.
Samkvæmt lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands getur forsætisráðherra veitt undanþágu „ef fyrirhugað aukastarf telst til mannúðarstarfa, kennslu- eða fræðistarfa, vísindarannsókna, listsköpunar eða annarra og tilfallandi starfa svo fremi að það hafi ekki áhrif á störf viðkomandi í Stjórnarráði Íslands og greiðslur fyrir aukastörfin teljast innan hóflegra marka“.
Beiðni um undanþágu skal afgreiða innan 30 daga frá því að hún berst. Ingvar segir í samtali við Kjarnann treysta forsætisráðuneytinu vel fyrir því að meta það gaumgæfilega hvort seta hans í stjórn Ríkisútvarpsins flokkist sem hagsmunaárekstur. Þar til niðurstaða liggi fyrir gerir hann ráð fyrir því að boða varamann í sinn stað á stjórnarfundi hjá Ríkisútvarpinu.