Norska bankakerfið skilaði að öllum líkindum meiri hagnaði í fyrra en hið íslenska, ef miðað er við landsframleiðslu ríkjanna tveggja. Hagnaður stærsta banka landsins, DNB, er metinn á 360 milljarða íslenskra króna, en búist er við að rekstur hans bætist enn frekar í kjölfar, meðal annars vegna stýrivaxtahækkana þar í landi.
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um skiluðu þrír stærstu bankarnir hérlendis samtals 81 milljarðs króna hagnað í fyrra, en það er mesti hagnaðurinn sem mælst hefur hjá þeim í sjö ár. Ef miðað er við áætlanir um að hagvöxtur hafi verið 4,1 prósent í fyrra má gera ráð fyrir að hagnaðurinn hafi numið 2,5 prósentum af landsframleiðslu.
Á vef hagstofu Noregs, SSB, má finna rekstrartölur frá norska bankakerfinu. Hagnaðartölur eftir skatt eru þó ekki aðgengilegar fyrir síðustu árin, en hægt er að áætla þær út frá meðalskattbyrði bankanna á árunum á undan. Á mynd hér að neðan má svo sjá hagnað íslensku og norsku bankanna sem hlutfall af landsframleiðslu ríkjanna tveggja.
Samkvæmt myndinni er áætlaður hagnaður norska bankakerfisins sennilega um helmingi meiri en á Íslandi, ef tekið er tillit til stærðar hagkerfanna beggja. Hagnaður íslensku bankanna hefur verið mun minni að umfangi en hjá þeim norsku síðustu sjö árin, en á árunum 2012-2015 var því öfugt farið.
Aukið svigrúm vegna hærri vaxta
Stærsti viðskiptabanki Noregs, DNB, skilaði frá sér rekstrarniðurstöðum fyrir árið 2021 á fimmtudaginn í síðustu viku. Samkvæmt þeim hagnaðist bankinn um rúma 25 milljarða norskra króna af starfsemi sinni, en það jafngildir um 360 milljörðum íslenskra króna.
Bankinn náði þó ekki eigin markmiði um 12 prósenta ávöxtun eigin fjár, en hún nam 10,7 prósentum á árinu. Í nýbirtri fjárfestatilkynningu stefndi hann hins vegar að því að ná markmiðinnu á næsta ári, vegna batnandi markaðsskilyrða.
Bankinn nefnir sérstaklega fyrirhugaðar stýrivaxtahækkanir á árinu sem ástæðu fyrir aukna ávöxtun eigin fjár, en hann segir þær geta leitt til meiri tekna af útlánastarfsemi sinni.