Skoðanakannanir í Grikklandi benda til að afar mjótt sé á munum milli Já- og Nei-stuðningshreyfinga í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem haldinn verður næstkomandi sunnudag. Jafnvel þótt bæði staðan og samningar við kröfuhafa hafi breyst frá því Alexis Tsipras forsætisráðherra boðaði til atkvæðagreiðslunnar, þá munu Grikkir kjósa um hvort þeir vilji ganga að samkomulagi við kröfuhafa gríska ríkisins eftir þrjá daga. Í nýrri skoðanakönnun mælist stuðningur við samkomulagið 47 prósent. Um 43 prósent aðspurðra sögðust ætla að kjósa „nei“ og er stærstur hluti Nei-liða stuðningsfólk Syriza, stjórnmálaflokks Tsipras. Vikmörk könnunarinnar eru 3,1 prósent og því erfitt að túlka með vissu hvor hreyfingin nýtur meiri stuðnings, þremur dögum fyrir atkvæðagreiðsluna. Báðar hafa boðað til mikilla mótmæla í dag.
Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra í grísku ríkisstjórninni, var harðorður í viðtali við fréttastofu Bloomberg í morgun og sagði hann myndi frekar skera af sér hendina heldur en að skrifa undir samkomulag við kröfuhafa sem gerir gríska ríkinu ókleift að endurskipuleggja skuldastöðuna. Hann sagðist myndu segja af sér ef gríska þjóðin kýs „Já“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Mikið er undir á sunnudaginn fyrir ríkisstjórn Tsipras sem gæti fallið verði samþykkt samninga við kröfuhafa niðurstaðan. Leiðtogar stærstu evruríkjanna og Evrópusambandsins hafa sagt með skýrum hætti að í raun kjósi Grikkir um áframhaldandi veru í evrusamstarfinu. Vonir Varoufakis eru þó þær að Grikkir kjósi „nei“ og að Grikkland haldi evrunni áfram, að því er hann sagði í viðtalinu við Bloomberg.
Bankar í Grikklandi hafa verið lokaðir alla vikuna og geta Grikkir ekki tekið hærri fjárhæð en 60 evrur, ríflega átta þúsund krónur, úr hraðbönkum á dag. Óvissa um framhaldið hefur leitt til óvenjulegra aðstæðna í landinu, svo ekki sé meira sagt, þar sem langar biðraðir myndast við hraðbanka og bæði launþegar og atvinnurekendur vita ekkert um framhald mála.