Tillaga breiðs hóps þingfulltrúa sem situr þing Alþýðusambands Íslands þess efnis að fresta þinginu um sex mánuði hefur verið samþykkt, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Þing ASÍ hófst að nýju klukkan tíu í morgun eftir viðburðarríkan gærdag þar sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, dró framboð sitt til forseta til baka.
Við upphaf annars dags 45. þings ASÍ í gær dag þótti næsta víst að Ragnar Þór yrði næsti forseti Alþýðusambandsins, en svo verður ekki. Í hópi þeirra tuga fulltrúa sem skyndilega gengu af þinginu á fjórða tímanum í gær voru auk Ragnar Þórs þau Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins og VLFA, sem fyrir gærdaginn þóttu líklegust til þess að verða 2. og 3. varaforseta sambandsins.
Samkvæmt dagskrá þingsins átti stjórnarkjör að fara fram eftir hádegi, en svo verður ekki.
Samkvæmt heimildum Kjarnans vann hópur fólks, úr ýmsum félögum, sem sitja þingið, tillögu þess efnis að þingi ASÍ yrði frestað um sex mánuði. Sú tillaga hefur nú verið samþykkt, samkvæmt sömu heimildum.
Stjórnarkjör getur farið fram þó vanti helming þingfulltrúa
Eftir að fjöldi félagsmanna VR og Eflingar gekk út af þinginu í gær var nokkur óvissa um hvort kosningar í miðstjórn og embætti forseta ASÍ gætu farið fram.
Samkvæmt þingsköpum ASÍ er það grunnreglan að atkvæðagreiðslur geti ekki farið fram um tillögur nema minnst helmingur þingfulltrúa sé á staðnum. Atkvæðagreiðsla getur þó talist gild ef þingforseti tilkynnir sérstakan tíma fyrir atkvæðagreiðslu, með minnst 30 mínútna fyrirvara.