Svo gæti farið að norska ríkisstjórnin kyrrsetji fiskveiðiskip á vegum Evrópusambandsins (ESB) sem veiða í norskri lögsögu skammt frá Svalbarða á næstu vikum og að sambandið svari með banni á norskum innflutningi. Þetta kemur fram í nýrri frétt frá Politico, en miðillinn segir nýtt þorskastríð vera mögulega í uppsiglingu á milli ESB og Noregs.
Samkvæmt umfjöllun Politico snúast deilurnar um fiskveiðikvóta við strendur Svalbarða sem bresk fiskiskip nýttu sér upphaflega en eru nú í höndum aðildarríkja ESB eftir útgöngu Bretlands úr sambandinu. Yfirvöld í Noregi segjast hins vegar hafa einkarétt á að úthluta kvótum í norskri lögsögu og gagnrýna því tilkall ESB-ríkja til kvótans.
„Það er enginn lagalegur grundvöllur í alþjóðalögum fyrir Evrópusambandið til að gefa út kvóta í norskri lögsögu,“ segir Audun Halvorsen, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs, í samtali við Politico. Samkvæmt honum er það grundvallaratriði að norsk stjórnvöld sjái um úthlutun kvótans til að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar. Þar sem núverandi kvóti sé um það bil að klárast segir hann einnig að eigendur fiskveiðiskipa frá sambandinu verði mögulega handteknir og ákærðir verði þeir staðnir að því að veiða í norskri lögsögu.
Möguleg kyrrsetning skipanna hefur vakið hörð viðbrögð hjá landbúnaðarráðuneytum Þýskalands, Spánar, Frakklands, Portúgals og Póllands. Ráðuneytin hafa sent framkvæmdastjóra landbúnaðarmála ESB sameiginlegt bréf þar sem hann er beðinn um að verja réttindi og hagsmuni sambandsins gegn fyrirhuguðum aðgerðum Norðmanna.
Samkvæmt Diek Parlevliet, formanni samtaka hagsmunaaðila um Norður-Atlantshafsveiðar innan Evrópusambandsins, gætu kvótarnir klárast í næstu viku. Hann telur líklegt að Evrópusambandið komi á innflutningsbanni við Noreg ef norska ríkisstjórnin byrjar að kyrrsetja báta frá Evrópusambandinu eftir það. „Viðskiptaþvingarnir eru einu vopn sambandsins,“ segir hann í viðtali við Politico.