„Það gæti orðið bið á því“ að yfirmenn Morgunblaðsins komi á fund með félögum í Blaðamannafélagi Íslands (BÍ) til þess að ræða auglýsingu Samherja sem birtist á vef mbl.is á dögunum og vísaði inn á myndband sem er hluti af herferð sjávarútvegsfyrirtækisins gegn fréttamanninum Helga Seljan.
Þetta kemur fram í Staksteinum Morgunblaðsins í dag, ritstjórnardálki sem er á ábyrgð ritstjóra blaðsins, Haraldar Johannessen og Davíðs Oddssonar. Þar eru skoðanir annarra iðulega teknar upp orðrétt og í dag er þar vísað til pistils bloggarans Páls Vilhjálmssonar um það sem hann kallar „RÚV-tilræði gegn Morgunblaðinu.“
Páll sagði í pistli sínum að nýr formaður BÍ, Sigríður Dögg Auðunsdóttir fréttamaður á Ríkisútvarpinu, hefði gert það að sínu fyrsta verki að „vega að lífsafkomu blaðamanna Morgunblaðsins vegna þess að blaðið birti auglýsingu frá Samherja“. Í niðurlagi Staksteinanna, eftir að pistli Páls sleppir, segir að formaður Blaðamannafélagsins eigi „enga kröfu“ til skýringa á birtingu auglýsingarinnar.
Stjórn Blaðamannafélagsins sendi bréf á framkvæmdastjóra og auglýsingastjóra fyrirtækisins 1. maí, þar sem meðal annars sagði að birting auglýsingarinnar hefði sett blaðamenn mbl.is í „óviðunandi stöðu“ sökum þess að herferð Samherja væri ekki einungis herferð „gegn einum fréttamanni eða einni ritstjórn“ heldur beindist hún gegn „öllum blaðamönnum og öllum ritstjórnum, þar á meðal blaðamönnum á mbl.is.“
Óskaði stjórn BÍ eftir því að stjórnendur Árvakurs myndu taka tillit til þessara sjónarmiða og fleiri til, ef sú staða kæmi aftur upp að auglýsandi óskaði eftir birtingu auglýsingar þar sem vegið væri að starfsheiðri fréttamanns eða fréttamanna.
Einnig óskaði félagið eftir því að fulltrúi Árvakurs mætti á umræðufund með félagsmönnum BÍ sem halda á fimmtudagskvöldið 6. maí, þar sem umræðuefnið verður meðal annars „siðferðileg álitaefni í tengslum við birtingu auglýsinga í íslenskum miðlum og ábyrgð fjölmiðla.“
Miðað við niðurlag Staksteinanna í Morgunblaðinu í dag er ekki líklegt að stjórnendur hjá útgáfufyrirtækinu, sem auk Morgunblaðsins og mbl.is heldur úti útvarpsstöðinni K100, mæti á fund félagsmanna BÍ til þess að ræða þau siðferðilegu sjónarmið varðandi birtingu auglýsingarinnar sem hafa verið mikið rædd af hálfu fagfólks í fjölmiðlum undanfarna daga.
Vert er að taka fram að báðir trúnaðarmenn Blaðamannafélagsins hjá Árvakri sögðu sig þeim störfum á föstudag. Annar þeirra vísaði til þess það væri sökum þess að stjórnin hefði farið út fyrir verksvið sitt með því að gagnrýna birtingu auglýsingar Samherja.
Ekki eru þó allir í Hádegismóum á einu máli um það, en Kjarninn hefur heimildir fyrir því að rík óánægja hafi verið með birtingu auglýsingarinnar hjá hluta blaðamanna á ritstjórn mbl.is og Morgunblaðsins.
Forsætisráðherra telur ástæðu til að ræða um skoðanaauglýsingar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við Ríkisútvarpið í gær að hún teldi ástæðu til að ræða hvort breyta þyrfti reglugerð um skoðanaauglýsingar hér á landi.
Sá munur er á skoðanaauglýsingum og hefðbundnum auglýsingum, viðskiptaboðum, að sá sem setur fram skoðanaauglýsingu er ekki að setja fram neitt tilboð um sölu á vöru eða þjónustu, heldur einmitt, að koma skoðun sinni á framfæri.
„Skoðanaauglýsingar eru í rauninni ekki hluti af því regluverki sem við erum með almennt um auglýsingar. Þetta hefur auðvitað vakið mikla athygli og mikil viðbrögð í samfélaginu og sjálf hef ég sagt að mér finnist þetta of langt gengið í slíkum auglýsingum en við erum reyndar líka með fleiri dæmi um slíkar skoðanaauglýsingar sem eru í gangi núna og hafa til að mynda verið um borgarstjórann í Reykjavík,“ sagði Katrín við RÚV.