Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort hún myndi fara fram á að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, segði af sér ráðherraembætti.
Tilefnið voru fréttir sem sagðar voru um helgina um ummæli Sigurðar um Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, en þar var hann sagður hafa vísað til Vigdísar sem „hinnar svörtu“ í samkvæmi á fimmtudagskvöld.
„Ummælin sem um ræðir voru rasísk, þau voru niðrandi og þau voru særandi,“ sagði Halldóra og sagði þau teljast áreitni í skilningi laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Því féllu þau undir bann við mismunun samkvæmt lögum. Hún vildi í því ljósi spyrja Katrínu hvernig hún teldi að ríkisstjórnin ætti að axla ábyrgð á ummælum innviðaráðherra. „Mun hæstvirtur forsætisráðherra. og ráðherra jafnréttismála, fara fram á að innviðaráðherra segi af sér?“
Sigurður Ingi birti stöðuuppfærslu á Facebook fyrr í dag þar sem hann baðst afsökunar á ummælunum. Katrín vitnaði til þess í svari sínu og sagði afsökunarbeiðnina endurspegla þá afstöðu Sigurðar Inga að ummælin hefðu verið röng og að þau hefðu ekki átt að falla, enda óásættanleg með öllu. „Við gerum þá kröfu í íslensku samfélagi að öllum sé sýnd virðing í hvívetna og að á ráðherrum í ríkisstjórn hvíli ríkari krafa og að undir henni eigum við ráðherrar að standa. Þegar mönnum verður á og þeir gera mistök skiptir hins vegar máli að þeir stigi fram og biðjist afsökunar með skýrum hætti sem innviðaráðherra hefur gert og það skiptir máli.“
„Það er hennar að draga línuna í sandinn“
Halldóra kom aftur í pontu og sagði Katrínu auðvitað ekki bera ábyrgð á orðum eða gjörðum annarra ráðherra innan ríkisstjórnarinnar. „En sem leiðtogi ríkisstjórnarinnar ber hún ábyrgð á því að vera leiðandi í þeim samfélagsbreytingum sem hún sjálf boðar. Það er hennar að draga línuna í sandinn. Ef hún ætlar að verða kyndilberi jafnréttis út á við hlýtur hún að þurfa að bregðast við á einhvern hátt þegar ráðherra í hennar eigin ríkisstjórn verður uppvís að framkomu sem brýtur í bága við allt sem hún segist standa fyrir. Að minnsta kosti þegar það hentar henni.“
Katrín sagðist standa nákvæmlega þar sem hún hefði staðið hingað til og stæði þar áfram. „Það liggur algjörlega fyrir að þau ummæli sem vitnað er til voru óásættanleg og ég rengi ekki orð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna í þeim mefnum. En við verðum líka að geta tekið því þegar fólk biðst afsökunar, eins og hæstvirtur innviðaráðherra hefur gert með mjög skýrum hætti.“
Baðst afsökunar á óviðurkvæmilegum orðum
Í stöðuuppfærslunni sem Sigurður Ingi birti í dag sagði að hann væri alinn upp við það og það væri hans lífsskoðun að allir væru jafnir. „Þess vegna hef ég tamið mér að koma jafnt fram við alla. En mér verður á eins og öðrum. Það þykir mér miður. Í kvöldverðarboði Framsóknar fyrir fulltrúa á Búnaðarþingi síðastliðið fimmtudagskvöld, lét ég óviðurkvæmileg orð falla í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Á þeim orðum biðst ég innilegrar afsökunar. Í lífinu er maður alltaf að læra á sjálfan sig. Sárt er þó að sá lærdómur bitni á tilfinningum annarra.“
Áður hafði Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga, vísað því á bug í samtali við DV að ráðherra hefði notað það orðalag sem hann hefur nú beðist afsökunar á. Hann hefði þess í stað sagt að hann vildi ekki halda halda á Sjálfstæðismanni eftir að sú hugmynd kom upp að hann og fleiri héldu á Vigdísi í einskonar „planka“ fyrir myndatöku.
Vigdís birti stöðuuppfærslu fyrr í dag þar sem hún sagði að „afar særandi ummæli“ hefðu verið látin falla og að hún hefði heyrt þau, sem og fleira starfsfólk Bændasamtakanna. Hún sagði að hún hefði aldrei talið að hún þyrfti að setjast niður og skrifa yfirlýsingu af þessu tagi. „Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð. Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn.“