Aðalvalkostur Vegagerðarinnar á veglínu til og frá gangamunnum áformaðra Fjarðarheiðarganga í Héraði, svokölluð suðurleið, myndi liggja í gegnum land fjögurra bújarða, m.a. Egilsstaða I og II. Fyrrnefndi bærinn er oftast kallaður Egilsstaðabúið og hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar í 133 ár. Ábúendur beggja bæjanna eru meðal þeirra sem skiluðu athugasemdum við umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar á þeim kostum sem hún dregur upp varðandi nýjar veglínur að göngunum.
Gera þeir m.a. athugasemdir við hversu lítið sé fjallað um áhrif á landbúnaðarland í skýrslunni. „Á tímum sem nú á matvælaframleiðsla heimsins undir högg að sækja og ein stærsta áskorun mannkyns er að tryggja fæðuöryggi heimsins,“ skrifar Herdís Magna Gunnarsdóttir fyrir hönd ábúenda Egilsstaðabúsins. Erlendis þar sem þrengra er um land hafi yfirvöld lagt áherslu á að vernda landbúnaðarland. Síðustu ár hafi íslensk stjórnvöld einnig lagt aukna áherslu á verndun landbúnaðarlands og í tíð Kristjáns Þórs Júlíussonar í stóli landbúnaðarráðherra var gefinn út grunnur að landbúnaðarstefnu sem ber heitið Ræktum Ísland. „Landbúnaðarland, vel fallið til ræktunar matvæla og fóðurs, er verðmæt auðlind og skal almennt ekki ráðstafa þessu landi til annarra nota með óafturkræfum hætti,“ segir m.a. í stefnunni. „Samkeppni um land má ekki verða til þess að landbúnaðarlandi sé fórnað til annarra nota en ræktunar.“
Þá er í stefnunni minnt á markmið jarðalaga um að stuðla að fjölbreyttum og samkeppnishæfum landbúnaði, náttúruvernd og viðhaldi og þróun byggðar. „Tryggja skal svo sem kostur er að land er vel fallið til búvöruframleiðslu sé varðveitt til slíkra nota og að fæðuöryggi sé tryggt til framtíðar.“
Egilsstaðabúið hefur verið í eigu og rekstri sömu fjölskyldu í 133 ár en land undir þéttbýlið var fyrir 75 árum tekið eignarnámi úr jörðinni. „Saga búsins er því samofin sögu Egilsstaðaþéttbýlisins,“ skrifar Herdís Magna í umsögn ábúendanna. Búið þyki setja skemmtilegan svip á ásýnd þéttbýlisins og hafi ábúendur skynjað mikinn áhuga og jákvæðni íbúa í garð búrekstrarins.
Hún bendir á að síðustu tíu ár hafi ný kynslóð Egilsstaðabænda verið að stíga inn í reksturinn og aukið við mjólkurframleiðsluna. Framkvæmdir við stækkun aðstöðu séu áætlaðar í náinni framtíð enda stöðug hagræðingarkrafa sé gerð á matvælaframleiðendur.
„Gott landbúnaðar- og ræktarland er grunnurinn að vaxtamöguleikum og rekstrarforsendum Egilsstaðabúsins,“ skrifar Herdís. „Nú þegar hefur þrengt verulega að landi þess og frekari aðför að góðu ræktarlandi þess getur sett framtíðarplön búrekstrar í uppnám og dregið úr rekstrarforsendum.“
Hún minnir á að gríðarleg vinna og fjárfesting liggi að baki góðu ræktarlandi og að síðustu áratugi hafi bændur Egilsstaðabúsins lagt ómælda vinnu og fjármagn í að byggja upp og efla sitt ræktarland, s.s. við jarðvinnslu, uppræktun og kölkun. „Það liggja því mikil verðmæti í góðu landbúnaðarlandi og hvetjum við Skipulagsstofnun og aðra er málið varðar til að taka tillit til þessa og forðast eins og hægt er að taka gott landbúnaðarland undir við ákvörðun um framkvæmdir.“
Ólafur Jónsson, eigandi Egilsstaða II, fagnar því í umsögn sinni að hafist sé loks handa við þá brýnu samgöngubót sem Fjarðarheiðargöng komi til með að verða. Hann bendir hins vegar á að suðurleiðin, aðalvalkostur Vegagerðarinnar á veglínu á Héraði að göngunum, sé sú leið af þremur sem oftast fékk einkunnina „verulega neikvæð áhrif“ í umhverfismatsskýrslunni. Leiðin fari yfir stórt ósnortið votlendissvæði, birkiskóg og aðrar vistgerðir sem skilgreindar eru með hátt verndargildi. Hugmyndir um mótvægisaðgerðir sem kynntar eru í skýrslunni eru að mati Ólafs óljósar og í huga eigenda Egilsstaða II óraunhæft að þær geti orðið. Þær yrðu auk þess ekki í landi jarðar þeirra en eðlilegt sé að gera kröfu um að mótvægisaðgerðir komi í landinu sem verði skert.
Mun rýra eignina verulega
„Suðurleiðin mun skera land okkar í sundur og rýra eignina verulega,“ skrifar Ólafur. Hann bendir á að sveitarfélagið Múlaþing hafi í skipulagi skilgreint land norðan við suðurleiðina sem byggingarland og hafi fyrir nokkrum árum tekið eignarnámi umtalsvert land úr landi Egilsstaða II sem þegar hafi að stórum hluta verið nýtt undir lóðir og hús. „Við teljum verulegar líkur á því í náinni framtíð að byggð muni áfram færast suður enda gott og fallegt byggingarland auk þess að vera eðlilegt skipulagslegt framhald af þéttbýlinu sem fyrir er. Eigendur munu því gera kröfu um bætur á landi sem taki mið af þessu.“
Suðurleið myndi liggja frá Skriðdals- og Breiðdalsvegi, um 1,5 kílómetra suður af Egilsstaðavegamótum. Vegamótin yrðu í jaðri svæðis þar sem gert sé ráð fyrir lágreistri byggð samkvæmt Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008–2028. Þaðan myndi leiðin liggja um skilgreint landbúnaðarsvæði í jaðri þéttbýlis.
„Suðurleið mun liggja nálægt fyrirhuguðu íbúðarsvæði og svæði þar sem áætluð er verslun og þjónusta,“ segir í umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar. Búast megi við því að suðurleið komi til með að draga að sér verslunar- og þjónustusvæði beggja vegna við hjáleiðina.
Á þessum hluta leiðarinnar færi vegurinn um Egilsstaðaskóg og svæði sem er að að mestu kjarri- og skógivaxnir klapparásar í dag. „Eftir því sem farið er nær núverandi Hringvegi en einnig er farið um tún og framræst land,“ bendir Vegagerðin á í skýrslu sinni. Þar sem suðurleið og miðleið, annar valkostur sem er metinn, sameinast eru nautahús Egilsstaðabýlisins í um 180 metra fjarlægð en þau eru í um 200 m fjarlægð frá núverandi vegi.
Veglínan gæti endað nær nautahúsinu
Í gegnum matsferlið hafa verið lagðar til breytingar á suðurleið í samráði við Múlaþing, segir ennfremur í skýrslunni. Annars vegar að bæta við möguleika á tengingu frá suðurleið að athafnasvæði á Egilsstöðum, og hins vegar að hnika veglínunni til suðurs við tengingu að Selbrekku í þeim tilgangi að varðveita betur mögulega byggingarlandið suður af Selbrekku. „Tillagan um að hnika veglínunni sunnar fer um svæði sem í aðalskipulagi er skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Með tilfærslunni myndi veglínan fara alveg upp að nautahúsi Egilsstaðabýlisins og liggja á stærri kafla um tún og framræst land.“
Framkvæmdasvæði suðurleiðarinnar myndi ná yfir fjórar jarðir í einkaeigu. Sú leið færi meira en aðrir kostir um svæði sem nýtur verndar í náttúruverndarlögum. Áhrif yrðu að einhverju leyti í ósamræmi við stefnumörkun sveitarfélagsins sem sett er fram í aðalskipulagi hvað varðar útivistarsvæði. „Svæðið kann að vera viðkvæmt fyrir breytingum og eru áhrif í sumum tilfellum óafturkræf. Áhrif eru metin nokkuð til talsvert neikvæð.“