Mánudagurinn 21. febrúar 2022 hefur þegar öðlast sess í sögubókum framtíðar, en í gær ákvað Vladímir Pútín forseti Rússlands að viðurkenna sjálfstæði tveggja svæða í austurhluta Úkraínu sem eru undir yfirráðum aðskilnaðarsinna. Hann segist nú viðurkenna svokölluð alþýðulýðveldi, Lúhansk og Dónetsk.
Í gærkvöldi sendi Pútín svo út tilskipun þess efnis að rússneskar hersveitir ættu að fara til þessa svæða og starfa sem „friðargæsluliðar“. Viðbrögðin við þessu hafa verið hörð.
Fordæmingar og hótanir
Á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem Rússar sitja fremur kaldhæðnislega á forsetastóli þessa dagana, voru aðgerðir Rússa harðlega fordæmdar.
Diplómatar vestrænna ríkja hétu því að það myndi hafa miklar afleiðingar fyrir Rússa að brjóta með þessum hætti gegn sjálfstæði Úkraínu og þeim friðarsáttmálum sem gerðir voru undir lok Kalda stríðsins.
Íslenskir ráðamenn hafa boðað að Íslandi muni taka þátt í refsiaðgerðum vestrænna ríkja gegn Rússum vegna þessarar þróunar mála í Úkraínu.
Þjóðverjar frysta Nord Stream 2
En hvert er framhaldið? Í dag má búast við því að ríki Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins tilkynni um efnahagslegar refsiaðgerðir gagnvart Rússum vegna þeirra skrefa sem tekin voru í gær.
Þær kunna að verða nokkuð þungar, ef taka má mið af þeirri ákvörðun Þjóðverja sem tilkynnt var í morgun, að setja gangsetningu Nord Stream 2 gasleiðslunnar, sem flytur jarðgas frá Rússlandi til Þýskalands um botn Eystrasaltsins, á ís.
Þýskir stjórnmálamenn höfðu áður forðast það að ræða um það sem raunhæfan möguleika, en Olaf Scholz kanslari tilkynnti á blaðamannafundi í morgun að staðan væri „gjörbreytt“ og því hefðu Þjóðverjar ákveðið að ráðast í þetta endurmat á sínum aðgerðum.
Bretar hafa boðað að þeir hyggist beita fimm rússneska banka viðskiptaþvingunum og þrjá rússneska auðmenn til viðbótar.
Frá æðstu stöðum í Evrópusambandinu hafa svo borist þau boð að lagt verði fyrir aðilarríkin að grípa til viðskiptaþvingana sem meðal annars beinist gegn þeim 351 þingmanni á rússnesku Dúmunni sem samþykktu að viðurkenna sjálfstæði svæðanna, auk rússneskra banka. Þá er lagt til að aðgengi rússneskra yfirvalda að evrópskum mörkuðum og að vöruviðskipti við svæði aðskilnaðarsinna verði heft.
Hvernig skilgreina Rússar Dónetsk og Lúhansk?
Alþýðulýðveldin svokölluðu Dónetsk og Lúhansk eru í samnefndum héruðum í austurhluta Úkraínu, en svæðið í heild er oftast kallað Donbass. Aðskilnaðarsinnarnir, sem með stuðningi Rússa hafa sölsað hafa undir sig land á þessum svæðum í átökum sem staðið hafa með hléum allt frá árinu 2014, stjórna þó einungis landsvæði sem nær yfir hluta héraðanna.
Kröfur aðskilnaðarsinna um landsvæði ganga þó enn lengra og vilja þeir líka ná undir sína stjórn því landsvæði sem er handan víglínunnar sem sker Donbass-svæðið í tvennt, en hún hefur lítið hreyfst á undanförnum árum.
Óljóst þykir hvort Vladimír Pútín ætli sér að taka undir þær kröfur og hvort „friðargæsluliðunum“ rússnesku verði ætlað það hlutverk að sækja fram gegn úkraínskum hersveitum á víglínunni til þess að tryggja að aðskilnaðarsinnum full yfirráð yfir héruðunum tveimur.
Slíkar aðgerðir myndu þýða hörð átök, sem sumir sérfræðingar telja að gætu jafnvel orðið upphafið að frekari stríðsátökum í Úkraínu.
Fréttin hefur verið uppfærð..