Í ljós hefur komið að ein helsta hindrunin í vegi fyrir því að ná útbreiddu hjarðónæmi í Bandaríkjunum er sú að sannfæra ungt fólk um að fara í bólusetningu. Mjög hefur hægt á bólusetningum í landinu og daglega fara fjölmargir skammtar af dropunum dýrmætu til spillis.
Yfirvöld hafa viðrað áhyggjur sínar af þessu síðustu daga og fram hefur komið í fréttum að tregðan til að þiggja bólusetningu sé einna mest hjá fólki á þrítugsaldri. Þetta er sagt helsta ástæða þess að markmið Joes Biden forseta, um að 70 prósent fullorðinna verði komnir með að minnsta kosti einn skammt af bóluefni fyrir 4. júlí, náist ekki.
Í grein New York Times um málið segir að einfaldara hafi verið að höfða til eldra fólks þegar bólusetningar hófust enda veikist það alvarlegar af COVID-19 en þeir sem yngri eru.
Yfirvöld víðs vegar um Bandaríkin hafa reynt að lokka ungt fólk til bólusetninga með ýmsum ráðum. En þar sem engin ein ástæða er fyrir því að það kemur ekki til að fá bólusetningu vandast málið. Til eru þeir sem vilja alls ekki láta bólusetja sig. Aðrir eru áhugalausir. Sumir eru hræddir eða hafa mikið að gera og gefa sér einfaldlega ekki tíma í að fara í bólusetningu.
Sérfræðingar í smitsjúkdómum segja að bólusetningar yngra fólks séu nauðsynlegur hlekkur í því að koma í veg fyrir nýja faraldra og stórar hópsýkingar, sérstaklega nú þegar hið bráðsmitandi Delta-afbrigði veirunnar er komið fram á sjónarsviðið.
Í apríl mættu yfir þrjár milljónir Bandaríkjamanna í bólusetningu á degi hverjum. Núna er fjöldinn undir einni milljón.
Aðeins þriðjungur fólks á aldrinum 18-29 ára hefur fengið bólusetningu. Svartir eru ólíklegri til þess en hvítir, þeir tekjulægri ólíklegri en hinir efnameiri og sömuleiðis virðist menntun hafa sömu áhrif; því minni menntun – þeim mun ólíklegra er að fólk hafi fengið bólusetningu.
Í grein Washington Post um stöðuna segir að rangar upplýsingar um bóluefni eða skortur á upplýsingum hjá ákveðnum hópum skýri tregðu til bólusetninga. Almennt vantraust í garð yfirvalda er auk þess útbreitt vandamál í Bandaríkjunum – ekki síst meðal svartra ungmenna. Það skýrir að einhverju leyti stöðuna sem upp er komin.
Ein mýtan er svo sú að bóluefni geti haft neikvæð áhrif á frjósemi kvenna. „Það er brjálæðislegt hvað þessi mýta er útbreidd,“ segir kvensjúkdómalæknirinn Eve Feinberg við Washington Post. Hún segir hins vegar erfitt að útrýma henni því þrátt fyrir að engin vísindaleg gögn bendi til þess að bóluefni valdi ófrjósemi virðast margir frekar treysta því að tíminn einn muni leiða það í ljós. Hinar röngu upplýsingar um áhrif bóluefna á frjósemi kvenna eru svo útbreiddar að tæplega helmingur ungra Bandaríkjamanna, fólks á aldrinum 18-29 ára, hefur heyrt þær.
Fæðingarlæknirinn D‘Angela Pitts segir við Washington Post að sannleikurinn sé sá að það sé COVID-19, sjúkdómurinn sem kórónuveiran veldur, sem geti verið hættulegur konum – ekki bóluefnið gegn honum. Þeim boðskap þurfi að koma betur áleiðis.