N1 Rafmagn hefur ákveðið að endurgreiða þeim viðskiptavinum sem komu til félagsins í gegnum þrautavaraleið stjórnvalda þann mismun sem var á auglýstum taxta og þrautavarataxta frá upphafi. Áður hafði raforkusalinn, sem er í eigu skráða fyrirtækisins Festi, ákveðið að endurgreiða viðskiptavinum fyrir tímabilið 1. nóvember 2021 til 31. desember 2021 án þess að útskýra með skýrum hætti af hverju það yrði einungis miðað við það tímabil.
N1 rafmagn ákvað Í mars 2021 að hækka þrautavarataxta í samræmi við verð á skammtímamarkaði. Sú ákvörðun um að breyta verðlagningu á rafmagni til þeirra fjölmörgu viðskiptavina sem koma óafvitandi i viðskipti hjá félaginu á grundvelli þrautavarakerfisins, hefur verið harðlega gagnrýnd af samkeppnisaðilum félagsins og jafnvel kölluð okur. Gagnrýnendur hafa sagt verðið sem neytendur voru látnir greiða hafi verið allt að 75 prósent yfir auglýstu verði.
í tilkynningu sem send var út í morgun segir að N1 Rafmagn harmi „að hafa hækkað þrautavarataxtann án þess að leita fyrst annarra leiða til að veita öllum viðskiptavinum sama verð og auglýst er.“ Þar er eftirfarandi haft eftir Hinriki Erni Bjarnasyni, framkvæmdastjóra N1: „Við gerðum mistök, öxlum ábyrgð á þeim og munum læra af þessu máli.“
Ætluðu fyrst aðeins að endurgreiða tvo mánuði
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem N1 tilkynnir um endurgreiðslur og biður neytendur afsökunar. Þann 20. janúar sendi félagið frá sér tilkynningu og sagðist þá taka mark á þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið við tvöfalda verðlagningu fyrirtækisins á raforku í opinberri umræðu og baðst „velvirðingar á því að hafa ekki gert það fyrr.“
Þegar Kjarninn óskaði eftir útskýringum á því af hverju N1 Rafmagn, ætlaði einungis að endurgreiða mismun undanfarinna tveggja mánaða, voru svörin loðin. Nú hefur verið ákveðið að endurgreiða lengra aftur.
Allir fá nú lægsta taxta
Í tilkynningunni sem N1 rafmagn sendi í morgun segir að félagið hafi fyrst tekið við sem sölufyrirtæki til þrautavara 1. maí 2020 en enginn munur var á auglýstum taxta til heimila og þrautavarataxta til heimila fram til mars 2021. „Endurgreiðslan á því við um tímabilið 1. mars 2021 til 31. október 2021 og getur heildarupphæð numið allt að 40 milljónum króna. Þegar hefur verið endurgreitt til viðskiptavina fyrir tímabilið 1. nóvember 2021 til 31. desember 2021.“
þar segir enn fremur að það hafi verið ósk N1 Rafmagns að finna sanngjarna niðurstöðu í máli félagsins sem söluaðili til þrautavara, hratt og örugglega. „Leitað var til Orkustofnunar, sem hefur umsjón og eftirlit með þrautavaraleiðinni, um leiðsögn hvað það varðar. Þar sem Orkustofnun hefur ekki enn birt félaginu niðurstöður sínar eða gefið svör við þeim spurningum sem lúta að stöðu N1 Rafmagns sem orkusali til þrautavara, þykir nauðsynlegt að koma til móts við þrautavaraviðskiptavini félagsins eins fljótt og kostur er með endurgreiðslu á uppgefnu tímabili. Um leið er beðist velvirðingar á ofangreindu misræmi í verðlagningu og munu allir viðskiptavinir sem koma í gegnum þrautavaraleið færast á lægsta taxta félagsins hér eftir.“
Þrauta-vara-hvað?
Orkusala til þrautavara er kannski ekki eitthvað sem hinn almenni neytandi veltir fyrir sér í amstri hversdagsins, en það raforkufyrirtæki sem er með lægst meðalverð á tilteknu tímabili er útnefnt sem raforkusali til þrautavara af Orkustofnun.
Fyrirtæki eru valin til að gegna þessu hlutverki til sex mánaða í senn og hefur N1 Rafmagn, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, verið valið þrisvar sinnum í hlutverkið frá því að valið fór fyrst fram með þessum hætti árið 2020.
Á þessa svokölluðu þrautavaraleið færast síðan þeir raforkunotendur sem ekki hafa af einhverjum ástæðum valið sér tiltekinn raforkusala til að vera í viðskiptum við. Þetta getur gerst þegar fólk flytur í nýtt húsnæði eða tekur við sem nýir viðskiptavinir á neysluveitu, til dæmis við fráfall maka sem áður var skráður fyrir rafmagnsreikningnum. Eða einfaldlega, þegar fólk hefur ekki hugmynd um að það eigi og þurfi að velja sér sérstaklega fyrirtæki til að vera í viðskiptum við um raforku.
Núgildandi reglugerð um þetta fyrirkomulag var sett árið 2019, af Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur fyrrverandi ráðherra orkumála. Ekki er skýrt af lestri þeirrar reglugerðar hvort orkusali til þrautavara skuli að veita þeim sem koma í viðskipti sjálfkrafa sama verð og öðrum notendum. Þó er orkusalinn settur í það hlutverk á grundvelli þess að vera með lægsta orkuverðið á landinu.