Meirihluti fjárlaganefndar, sem samanstendur af þingmönnum Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, ákvað að veita 100 milljón króna framlag úr ríkissjóði „vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð“ með breytingartillögu á fjárlögum sem lögð var fram á þingi 5. desember síðastliðinn.
Í áliti meirihluta fjárlaganefndar var ekki gerð grein fyrir því hvort eða hvaðan beiðni um þetta framlag hafi komið. Heimildir Kjarnans herma að breytingartillagan um að veita 100 milljón króna styrk á þessum grundvelli hafi komið frá landsbyggðarþingmönnum úr röðum stjórnarflokkanna sem hefðu meðal annars rökstutt það með því að ríkisfjölmiðillinn RÚV sinnti landsbyggðinni ekki nægilega vel.
Kjarninn hefur nú undir höndum beiðni sem send var til fjárlaganefndar þann 1. desember, en hefur ekki verið birt á vef Alþingis. Beiðnin er frá Maríu Björk Ingvadóttur, framkvæmdastjóra N4 fjölmiðils, sem er með höfuðstöðvar á Akureyri. Í beiðninni óskar María eftir að ríkissjóður veiti N4 100 milljón króna styrk „til að halda úti fjölmiðlun, þáttagerð og fréttamiðlun, af landsbyggðunum árið 2023.“ Sérstaklega er tiltekið að María sé stödd í Kaupmannahöfn þegar beiðnin var send.
N4 er meðal annars í eigu KEA, Kaupfélags Skagfirðinga og Síldarvinnslunnar, sem á hlut í gegnum Fjárfestingarfélagið Vör. Stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji, eitt stærsta fyrirtæki landsins sem er með höfuðstöðvar á Akureyri.
N4 hefur framleitt kostað efni fyrir ýmsa aðila, meðal annars Samherja, og í fyrra var helsti dagskrárgerðarmaður N4, Karl Eskill Pálsson, ráðinn í starf upplýsingafulltrúa Samherja. Í viðtali við Stundina í fyrra, áður en hann réð sig til Samherja, tók Karl Eskill það sérstaklega fram að N4 væri ekki fréttastöð.
Fyrir þingkosningarnar í fyrrahaust var svo greint frá því að N4 hafi ætlað að rukka framboð fyrir að fá að vera með í kosningaumfjöllun sem stöðin ætlaði að vera með. Eftir að málið varð opinbert var hætt við umfjöllunina.
Yrði langstyrkjahæsti einkarekni fjölmiðillinn
Skömmu áður en að fjárlaganefnd ákvað að verða við beiðni N4 um sérstakan rekstrarstyrk upp á 100 milljónir króna var lagt frumvarp um að framlengja styrkjakerfi til einkarekinna fjölmiðla til tveggja ára. Samkvæmt því munu einkareknir miðlar skipta með sér 377 milljónum króna á næsta ári. Í ár fengu 25 fyrirtæki styrk. Alls 53 prósent upphæðarinnar fór til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs, en hvert þeirra fékk 66,7 milljónir króna.
Ef fyrirtækið, sem var með tíu ársverk á síðasta ári og skilaði þá hagnaði upp á 824 þúsund krónur, fengi svipaða greiðslu úr styrkjakerfinu til viðbótar við 100 milljón króna styrkinn myndi N4 fá rúmlega 120 milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári, eða mesta allra einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Sú greiðsla yrði um 80 prósent hærri en stærstu fjölmiðlar landsins myndu fá.
Rökstuðningur byggður á röngum upplýsingum
Í beiðni Maríu er settur fram fjórþættur rökstuðningur fyrir því að N4 eigi að fá sérstakan rekstrarstyrk úr ríkissjóði. Annars vegar segir að skilyrði fyrir rekstrarstyrk úr ríkissjóði á undanförnum árum hafi verið að N4 framleiddi eða sýndi 365 þætti á ári, eða að meðaltali einn nýjan þátt á dag. Þetta er ekki rétt. Í lögum um fjölmiðla segir að skilyrði fyrir styrk séu að prentmiðlar komi út að lágmarki 20 sinnum á ári og að netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skuli miðla nýju efni á virkum dögum í 20 vikur á ári.
Í öðru lagi tiltekur María að mörg sveitarfélög hafi verið tilbúin að styrkja þáttagerð af sínum svæðum, ýmist með beinum styrkjum til þáttagerðar eða kaupum á þjónustu. „Nú bregður svo við að aðalbaklandið, Norðurland allt, hvarf frá þessu 2022 en hélt okkur volgum fram eftir ári. Það komu að lokum rúmar 4 milljónir samtals í þjónustukaup frá 12 sveitarfélögum á Norðurlandi eystra nú í lok árs. ( ca 26.000.- að meðaltali á mánuði frá hverju þeirra ). Þetta hefur sett rekstur stöðvarinnar í algjört uppnám.“
Þá segir hún auglýsingatekjur hafa stórminnkað á þessu ári. Þar komi tvennt til, annars vegar stóraukið hlutfall auglýsinga sem fari til erlendra samfélagsmiðla, sem María segir í beiðninni að taki til sín 55 prósent auglýsingafjár. Hið rétta er að 43,2 prósent, eða 9,5 af 22 milljörðum króna sem varið var til auglýsingakaupa í fyrra, fór til erlendra aðila. Hitt sé að stærstur hluti þess sem eftir verði í landinu fari til RÚV „ þar sem meðallaun sölumanna eru 1,2 milljónir á mánuði“. Auglýsingatekjur RÚV í fyrra voru rúmlega tveir milljarðar króna, sem er undir 20 prósent þeirra auglýsingatekna sem fóru til innlendra aðila í fyrra.
Fjórða og síðasta atriðið sem María nefnir til stuðnings þess að N4 eigi að fá sérstakan rekstrarstuðning er að fyrirtæki séu ekki lengur jafn áfjáð í að kosta þætti eftir að kórónuveirufaraldrinum lauk og þau voru áður. Það’ hafi orsakað mikinn tekjusamdrátt.
Þingmenn utan af landi mynda uppistöðu meirihlutans
Á grundvelli þessa rökstuðnings ákvað meirihluti fjárlaganefndar að veita N4 100 milljónum króna úr ríkissjóði. Meirihlutann skipa Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, Haraldur Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir og Vilhjálmur Árnason úr Sjálfstæðisflokki og Þórarinn Ingi Pétursson og Stefán Vagn Stefánsson úr Framsóknarflokki.
Allir þessir þingmenn utan Bryndísar, sem kemur úr Suðvesturkjördæmi, eru þingmenn landsbyggðarkjördæma. Þeir Stefán Vagn og Haraldur eru úr Norðvesturkjördæmi, en framkvæmdastjóri N4 er búsett á Sauðárkróki sem er í því kjördæmi. Þau Bjarkey og Þórarinn Ingi eru úr Norðausturkjördæmi, þar sem höfuðstöðvar N4 eru.
Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Bjarkeyju að það væru fleiri fjölmiðlar úti á landi sem framleiddu sjónvarp en N4, meðal annars Víkurfréttir á Suðurnesjum. „Við vildum aukinn stuðning við landsbyggðarmiðlana. Það er ekkert launungarmál, það er bara þannig.“
Ekkert erindi barst frá Víkurfréttum eða öðrum landsbyggðarfjölmiðlum utan N4 til fjárlaganefndar um beinan ríkisstyrk. Í beiðni N4 bað miðillinn um nákvæmlega þá tölu sem fjárlaganefnd ákvað að veita í styrk vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð.
Hjá Víkurfréttum voru fjögur ársverk í fyrra og miðillinn skilaði næstum 14 milljón króna hagnaði á árinu 2021, sem var um 16 prósent af veltu. Allt hlutafé þess er í eigu Páls Ketilssonar, ritstjóra Víkurfrétta. Víkurfréttir sinna fréttaflutningi af Suðurnesjum auk þess sem fyrirtækið rekur golfvefinn www.kylfingur.is.