Akstri næturstrætó hefur verið hætt. Næturstrætó hefur gengið frá því í júlí en væntingar um farþegafjölda hafa ekki staðist þrátt fyrir að búist hafi verið við auknum fjölda nú í haust þegar starfsfólk kom úr sumarleyfum og skólar hófust á ný, að því er segir í tilkynningu frá Strætó.
Næturstrætó var á meðal kosningaloforða Framsóknarflokksins og Pírata í borgarstjórnarkosningunum í vor.
Stjórn Strætó samþykkti þann 4. júlí að hefja akstur næturstrætó um helgar til reynslu út septembermánuð. Um er að ræða leiðir 101, 102, 103, 104, 105, 106 og 107.
Ekki er verið að nota næturakstur Strætó eins mikið og vonir stóðu til, samkvæmt kynningu sem stjórnarmenn í Strætó bs. fengu frá fyrirtækinu á stjórnarfundi í lok ágúst.
Í kynningunni kom fram að á bilinu 300-340 farþegar hefðu verið að nýta sér aksturinn á hverju kvöldi fyrstu fjórar helgarnar sem næturstrætó keyrði, eða um 14-16 manns að meðaltali í hverja næturferð sem ekin er.
Strætó segir í samantekt um næturaksturinn að notkunin hafi verið „þokkaleg, en undir væntingum miðað við óskir um endurvakningu næturleiða“, en nokkuð ákall var uppi um það að Strætó myndi hefja akstur að næturlagi á ný um helgar eftir að skemmtanalíf færðist í samt horf við afléttingu samkomutakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins.
Stjórn Strætó hefur nú samþykkt að ekki sé réttlætanlegt að halda áfram akstri næturstrætó um helgar nú að loknum reynslutíma og verður því þeirri þjónustu hætt.