Yfir 200 tonn af matvælum bíða afgreiðslu á hafnarbakkanum í Sundarhöfn. Ekki er hægt að leysa vörurnar út og koma þeim í verslanir vegna kjaradeilu dýralækna hjá Matvælastofnun, en þeir eru í verkfalli sem hefur staðið yfir í rúmar þrjár vikur. Dýralæknarnir þurfa að votta allar innfluttar matvörur. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Eina undanþágubeiðnin sem hefur verið samþykkt er vegna ungbarnamjólkur.
Mikill skortur er á nautakjöti, kjúklingakjöti og fersku svínakjöti á innanlandsmarkaði vegna verkfalls dýralækna. Slátrun á svínum og alifuglum hefur verið heimiluð með þeirri kröfu að afurðir fari í frost og að ekki verði unnið úr þeim fyrr en verkfalli lýkur.
Ekkert kjöt hefur þrátt fyrir þetta verið flutt til landsins. Sum þeirra matvæla sem bíða afgreiðslu í Sundahöfn eru með stuttum tímastimpli og gætu skemmst. Á meðal þeirra eru kjúklingar og nautakjöt.
Í Fréttablaðinu segir Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, að engin heimild hafi fengist fyrir innflutningi á matvælum á meðan verkfallið hefur staðið yfir.