Umhverfisstofnun telur að ekki sé unnt að ráðast i endurheimt eða mótvægisaðgerðir til að bæta fyrir umhverfisáhrif sem myndu hljótast af því að færa hringveginn við Vík í Mýrdal ofan af Gatnabrún og niður að ströndinni. „Eina raunhæfa aðgerðin sem getur komið í veg fyrir þessi miklu neikvæðu umhverfisáhrif er að velja veginum annan stað en hér er gert.“
Þetta er meðal þess sem Umhverfisstofnun benti á í umsögn sinni um matsáætlun Vegagerðarinnar vegna fyrirhugaðrar færslu hringvegarins í Mýrdal. Umhverfisstofnun segir veglínuna meðfram ströndinni liggja nærri landsvæðum sem talin eru hafa mjög mikið verndargildi og staði sem séu vinsælir meðal ferðamanna.
Skipulagsstofnun féllst nýverið á matsáætlunina með skilyrðum.
Vegurinn liggur nú um Gatnabrún en sveitarfélagið vill fá veg með ströndinni sem þyrfti þá að fara umhverfis eða yfir Dyrhólaós, og svo í jarðgöngum í gegnum Reynisfjall. Þessi skipulagslína sveitarfélagsins samkvæmt gildandi aðalskipulagi er kölluð valkostur 1 í matsáætlun Vegagerðarinnar. Fjallað er þar um sex valkosti til viðbótar, fjóra sem gera ráð fyrir jarðgöngum og tvo í námunda við núverandi vegstæði.
Sérfræðingar Umhverfisstofnunar vöktu í umsögn sinni athygli á því að svo virðist sem þegar hafi verið ákveðið hvar vegurinn skuli liggja því að í greinargerð Vegagerðarinnar komi fram að verið sé að vinna forhönnun vegar samkvæmt valkosti 1 og að mat á umhverfisáhrifum verði unnið samhliða þeirri forhönnun.
„Umhverfisstofnun telur að þegar mati á umhverfisáhrifum virðist ekki ætlað annað hlutverk en að setja fram tillögu um útfærslu vegarins, t.d. hvort fláar verði 1:2,5 eða 1:3 eða hvort ræsi verða fleiri eða færri, þá er matsferlið orðið lítið annað en formsatriði sem þarf að ljúka áður en ráðist er í framkvæmdir.“
Umhverfisstofnun segist svo hafa upplýsingar um að líkast til hafi aldrei verið hannaður vegur um Gatnabrún heldur sé núverandi vegur lagfæring eldri vegar sem hafi verið valinn staður á sama hátt og núverandi vegur, þ.e. „settur út eftir auganu“. Stofnunin telur því að koma þurfi fram að núverandi vegur sé á engan hátt besta vegtæknilega lausnin á þessum stað og unnt sé að minnka halla og krappar beygjur með nýrri hönnun eins og ráðgert er.
Vegagerðin brást við þessum athugasemdum Umhverfisstofnunar með þeim orðum að þótt ákveðin stefna hafi verið mörkuð í aðalskipulagi Mýrdalshrepps og samgönguáætlun stjórnvalda, sem felur í sér strandveg og jarðgöng, beri Vegagerðinni að skoða aðra raunhæfa valkosti. Auk þess hafi Vegagerðin skyldum að gegna varðandi kröfur um vegtæknileg atriði, greiðfærni, umferðaröryggi og kostnað. „Unnið er að frumdrögum fyrir alla valkostina og verður sambærilegra gagna aflað um valkostina og gerð grein fyrir þeim í umhverfismatsskýrslu. Vegagerðin mótmælir þeirri túlkun Umhverfisstofnunar að umhverfismatið sé aðeins til málamynda.“