Við opnun markaða á Wall Street í morgun lækkaði virði streymisveitunnar Netflix um heil 26 prósent. Forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu þá nýlega tilkynnt að í stað þess að fá 2,5 milljón nýja áskrifendur á fyrsta ársfjórðungi líkt og áætlanir gerðu ráð fyrir, var um 200 þúsund áskriftum sagt upp. Að auki töpuðust um 700 þúsund áskrifendur er Netflix ákvað að loka fyrir þjónustu sína í Rússlandi eftir innrásina í Úkraínu.
Þetta er í fyrsta sinn í áratug sem áskrifendum fækkar hjá streymisveitunni og er því nú spáð að þeim muni halda áfram að fækka, jafnvel um 2 milljónir til viðbótar, á yfirstandandi ársfjórðungi.
Og það jafnvel þótt að þáttaraðir sem beðið hefur verið með mikilli eftirvæntingu verði senn á dagskrá, m.a. næstu seríur af Stranger Things og Ozark.
Viðbrögð Netflix eru m.a. þau að bjóða upp á nýja og ódýrari áskriftarleið – þar sem auglýsingar verða birtar. Svipaðar leiðir eru farnar hjá helstu samkeppnisaðilunum, HBO Max og Disney+.
Reed Hastings, forstjóri Netflix, segist alla tíð hafa verið mótfallinn því að hafa auglýsingar í streymisveitunni. Hann hafi viljað hafa áskrift að Netflix einfalda og þægilega. En nú hafa tímarnir breyst og það hratt.
Áhrif stríðsins í Úkraínu á alþjóða hagkerfið, m.a. með aukinni verðbólgu og verðhækkunum á nauðsynjavörum, verða sífellt meiri og augljósari og er staða Netflix ein birtingarmynd þess. Hins vegar hefur fleira komið til s.s. aukin samkeppni. Þá hafði kórónuveirufaraldurinn, sem Netflix græddi á á meðan heimsbyggðin var stödd í honum miðjum með útgöngubanni og einangrunarvist, efnahagslegar afleiðingar. Vöruframleiðsla tafðist og flutningar vara sömuleiðis. Þetta hökkt í keðjunni, eins og það hefur stundum verið kallað, átti hins vegar að jafna sig á nokkrum mánuðum. Innrás Rússa í Úkraínu hefur hins vegar sett allt í uppnám.
Auka árásir í austri
Stríðið í Úkraínu hefur staðið í 55 daga. Mannfall er mikið og Rússar herja nú á austurhluta landsins sem aldrei fyrr. Ástandið er einnig hrikalegt í borginni Maríupol sem Rússar eru með í herkví. Þeir hafa gefið úkraínska hernum frest til morguns til að gefast upp í baráttunni um borgina.
BBC greindi frá því í morgun að svo virðist sem Rússar hafi náð yfirhöndinni í borgum í austri sem næstar eru landamærum þeirra. Herir þeirra hafa hins vegar dregið sig frá höfuðborginni Kænugarði og norðurhluta Úkraínu. Miklum herstyrk er því nú beitt í austri og segjast Rússar hafa ráðist á yfir þúsund hernaðarleg skotmörk í nótt.
Milljónir hafa flúið Úkraínu og ljóst að margir eiga þangað ekki afturkvæmt í nánustu framtíð enda borgir og bæir rústir að hluta.