Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO) hefur vísað fjölmörgum rússneskum starfsmönnum á brott úr höfuðstöðvum sínum í Brussel vegna þess að þeir gætu verið njósnarar fyrir stjórnvöld í Rússlandi. Um leið hefur NATO lagt grunnin að því að neyðarlína á milli Kremlar og helstu leikenda innan NATO verði tengd á ný, eftir að hafa verið aflögð á síðustu árum Kalda stríðsins.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var í viðtali við breska blaðið The Guardian um helgina. Hann sagði þessar ráðstafanir vera afleiðing aukinnar hörku og óvissu í samskiptum vesturveldanna við Rússa. Meðal annars hefur undanfarið orðið vart við fleiri rússneskar orustuflugvélar í lofthelgi bandalagsþjóða NATO.
„Það er mikilvægt að hafa eðlileg hernaðarleg samskipti svo ef að eitthvað óeðlilegt gerist, þá er auðvelt að komast að raun um misskilning og afstýra stjórnlausum afleiðingum,“ sagði Stoltenberg í viðtalinu.
Þær aðgerðir ráðist er til í Brussel miða að því að gera samskiptin formlegri á hernaðarlega stiginu, en fækka diplómatískum samskiptaleiðum. Þannig hefur rússneskum diplómötum og embættismönnum verið gert að yfirgefa skrifstofur sínar í höfuðstöðvum NATO. Ákvörðun um þetta var tekin í síðasta mánuði en hún fækkar fulltrúum sendinefnda annara ríkja en bandalagsþjóða í 30. Rússar voru eina þjóðin sem hafði fleiri en 30 fulltrúa í sinni sendinefnd.
Samkvæmt heimildum The Guardian hafa starfsmenn NATO sagt í einkasamtölum að talið sé að um það bil helmingur rússnesku sendinefndarinnar séu í raun á launaskrá leyniþjónustunnar í Rússlandi. Fjöldi rússneskra starfsmanna er auk þess nokkuð á reiki; Stjórnvöld í Moskvu segja 37 starfsmenn á þeirra vegum í Brussel, einn fulltrúi bandalagsþjóðanna telur 61 Rússa og aðrir heimildamenn innan NATO segja þá vera 90.
Stoltenberg neitar því þó að aðgerðirnar séu miðaðar að Rússum einum. „Hvað varðar Rússa þá höfum við ákveðið að hætta eiginlegri samvinnu en halda pólitískum og hernaðarlegum samskiptum,“ sagði Stoltenberg. Hátt settir embættismenn innan NATO segja þó aðgerðirnar skref í þá átt að útrýma rússnesku njósnastarfi innan höfuðstöðvanna í Brussel.
Jens Stoltenberg tók við embætti framkvæmdastjóra NATO í fyrra af Anders Fogh Rasmussen. Myndir: EPA