Segja má að skrúfast hafi fyrir útflutning á íslenskum varningi til Rússlands í kjölfar innrásar ríkisins í Úkraínu í lok febrúarmánaðar. Ekki ein einasta vara flutt frá Íslandi til Rússlands í ágústmánuði, samkvæmt tölum frá Hagstofunni.
Þetta er umtalsverð breyting. Á síðasta ári nam verðmæti íslenskra útflutningsvara til Rússlands 389,5 milljónum króna að meðaltali í mánuði hverjum, en frá því í mars og fram í ágúst á þessu var útflutningsverðmætið að meðaltali einungis 8,4 milljónir króna.
Það jafngildir því að verðmæti mánaðarlegs útflutnings frá Íslandi til Rússlands frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu sé einungis rúm tvö prósent af því sem hann var að meðaltali á síðasta ári.
Þróun tveggja síðustu mánaða er þó ekki talin þarna með, en nýjustu tölur Hagstofunnar eru frá því í ágúst.
En hvað er þetta lítilræði, sem íslenskir aðilar hafa verið að flytja út til Rússlands þrátt fyrir áhrif innrásarinnar á viðskipti við ríkið og vöruflutninga? Kjarninn tók það helsta saman.
Í aprílmánuði flutti einhver íslenskur aðili út 191 kíló af búklýsi til Rússlands, að andvirði 2,4 milljóna íslenskra króna. Í mars hafði einhver flutt út tæpt tonn af þotueldsneyti til Rússlands að andvirði 116 þúsund króna.
Einna stærstu viðskiptin með vörur frá Íslandi áttu sér svo stað í maí, er einhver aðili flutti út 15,7 tonn af niðursoðinni fisklifur fyrir 15,9 milljónir króna. Í júní voru svo flutt út 129 tonn af gasolíum til Rússlands, að verðmæti 23,4 milljóna króna.
Í júlí var svo talsvert af veiðarfærum flutt til Rússlands, samkvæmt því sem sjá má í útflutningsyfirliti Hagstofunnar. Flutt voru út fiskinet og fiskinetaslöngur fyrir 4,7 milljónir króna, vörur til veiðarfæra úr járni fyrir 1,5 milljónir króna, kaðlar úr pólyetyleni eða pólyprópyleni fyrir 523 þúsund krónur, rúllukeðjur fyrir 363 þúsund krónur, botnrúllur fyrir 262 þúsund krónur og kasthjól og reimhjól fyrir 43 þúsund krónur.
Það virðist því ekki margt sem enn er flutt til Rússlands eftir innrás landsins í Úkraínu og þau viðskipti sem eru enn á milli íslenskra aðila og rússneskra eru nær öll á hinn veginn, en eins og Kjarninn rakti í samantekt sem birtist á dögunum er ýmiss rússneskur framleiðsluvarningur enn fluttur til Íslands með svipuðum hætti og fyrir innrás, samkvæmt tölum frá Hagstofunni.