Geimferðastofunun Norður-Kóreu er að byggja nýja gervihnetti og undirbúa geimskot, að sögn ríkisfjölmiðla þar í landi. Þetta er mögulega vísbending um að Norður-Kóreumenn hafi náð framförum í smíði eldflauga og að þær séu nú langdrægnari og geti borið þyngri farm en áður. Reuters er meðal þeirra sem greina frá þessu.
Gert er ráð fyrir að Norður-Kórea sendi af stað langdregna flaug 10. október á stofndegi kommúnistaflokksins sem öllu ræður þar í landi. Slíkt skot mun að öllum líkindum brjóta gegn alþjóðasamþykktum. Haft var eftir yfirmanni geimferðastofnunarinnar að nú væri síðasta skrefið hafið í þróun gervihnattar sem getur kannað yfirborð jarðar.
Bæði Suður-Kórea og Bandaríkin hafa brugðist við yfirlýsingum norðanmanna og sagt allar tilraunir þeirra með langdregnar flaugar brjóta gegn samþykktum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Eftirlit þessara þjóða með grunsamlegum stöðum í Norður-Kóreu hefur ekki leitt í ljós neitt óvenjulegt og því óvíst hvort fullyrðingarnar séu sannar.
Shin In-kyun, yfirmaður óháðu stofnuninni Öryggisnet Kóreu (e. Korea Defence Network), segir að tilraunir Norður-Kóreu með eldflaugar miði annað hvort að því að gera þær langdregnari eða bera meiri þyngd, hvort sem það er með vopn eða geimbúnað. „Það yrði ekki góðs viti ef flaugar þeirra geta borið kjarnorkuvopn, um það bil 1,3 tonn, því það setur vesturströnd Bandaríkjanna í skotsviðið,“ sagði Shin.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu þvertaka fyrir það að vera að útbúa langdrægar skotflaugar til nota í hernaði. Heldur sé verið að undirbúa lögmæta geimferðaáætlun sem miðar að því að því að koma gervitunglum á braut um jörðu. Bandaríksk og suður-kóresk yfirvöld telja hins vegar að þetta tengist kjarnorkutilraunum norðan landamæranna á Kóreuskaga.
Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, heimsótti Pjongjang árið 1994 og ræddi við Kim il-Sung. Í kjölfarið hætti Norður-Kórea kjarnorkutilraunum í átta ár.