Flugstjóri sem sótti um vinnu hjá nýja norska lággjaldaflugfélaginu Flyr sakar félagið um að hafa reynt að nýta sér slæma stöðu flugstarfsmanna í heimsfaraldrinum og bjóða þeim langtum lægri laun en annars. Flyr reyndi fyrst að bjóða flugstjórum hærri grunnlaun en eru í boði hjá PLAY, en hafa núna hækkað þau eftir að hafa gert kjarasamning við stéttarfélag flugmanna þar í landi.
Samkvæmt frétt NRK um málið fól upphaflega tilboð Flyr til flugstjóra með mikla reynslu í sér 750 þúsund norskar krónur í grunnlaun á ári. Þetta jafngildir 911 þúsund íslenskum krónum á mánuði. Samkvæmt kjarasamningi íslenska flugfélagsins PLAY við ÍFF fá flugstjórar í sama launaflokki 900 þúsund krónur á mánuði í grunnlaun. Kjarasamninginn á milli ÍFF og PLAY má nálgast með því að smella hér.
Launin sem Flyr bauð eru 40 prósent lægri en launin sem bjóðast flugstjórum með sömu reynslu hjá norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian, samkvæmt heimildum NRK.
Flugfélagið varði sjálft eigið tilboð og sagði flugstjóra vel geta lifað eðlilegu lífi á þessum kjörum. Eðlilegt væri að fólk sem hefði unnið sig upp í önnur launaþrep í öðrum félögum fengi lægri laun þegar þeir sæktu um vinnu í nýju félagi. Þess utan segir félagið að flugmenn fái árangurstengda bónusa sem myndu bætast við grunnlaunin.
Flyr, sem var stofnað af Norðmanninum Erik G. Braathen, fyrrum forstjóra Braathens-flugfélagsins, stefnir á sína fyrstu flugferð þann 30. júní. Flugfélagið mun fljúga til Alicante, Malaga og Nice, auk fimm annarra áfangastaða í Noregi.
Thomas Ramdahl, markaðsstjóri Flyr, sagði heimsfaraldurinn hafa gert flugfélaginu kleift að lækka verðið á flugmiðunum sínum, þar sem flugvélar séu nú ódýrar og auðvelt sé að ráða inn starfsfólk. Í síðustu viku störfuðu um 60 manns hjá félaginu, en búist er við að þeir verði 350 talsins fyrir lok árs.