Sjávarútvegsráðuneyti Noregs hefur formlega fyrirskipað Fiskistofu (Fiskeridirektoratet) þar í landi að herða reglur sem snúa að erlendu eignarhaldi á fiskveiðiskipum sem úthlutað hefur verið fiskveiðikvóta í Noregi. Fiskistofa á nú að leggja sérstakt mat á hvort reglur séu brotnar. Til viðbótar stendur til að setja nýja reglugerð sem mun gera það að verkum að norsk stjórnvöld verða að veita sérstaka heimild fyrir slíkum kaupum. Eins og er þá er nóg að tilkynna um kaup erlendra aðila á skipum með fiskveiðikvóta, en ekki þarf að sækja sérstaka heimild.
Í tilkynningu sem birtist á vef norska stjórnarráðsins í dag vegna þessa er haft eftir Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, að hann reyni ekki að fela að fyrirskipunin eigi rætur sínar að rekja til kaupa íslenska sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja, eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis Evrópu, á 40 prósent hlut í norskri útgerð, Eskøy í Finnmörku í Norður-Noregi. „Samherji er þegar með viðveru í fjölmörgum evrópskum fiskveiðiþjóðum og hefur veitt í okkar lögsögu undir mismunandi fánum, og slík alþjóðleg samþjöppun á eignarhaldi leiðir af sér sérstakar stjórnunaráskoranir.“
Sagði Samherja með laskað mannorð
Seint á síðasta ári var gert samkomulag um að Icefresh GmbH, dótturfélag Samherja í Þýskalandi, myndi leggja Eskøy til nýtt fé og fá í staðinn 40 prósent hlut í Eskøy. Greint var formlega frá frágangi viðskiptanna á vef vef Icefresh seint í apríl, eftir að norska Fiskistofan hafði vottað ráðahaginn. Eskøy hefur um árabið verið í samstarfi við Icefresh sem rekur fiskvinnslu nálægt Frankfurt am Main í Þýskalandi.
Lög í Noregi segja til um að skip með úthlutuðum fiskveiðikvóta verði að vera í að minnsta kosti 60 prósent eigu Norðmanna. Eigendur 60 prósent hlutar í Eskøy eru íslenskir bræður sem hafa hlotið norskan ríkisborgararétt.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að norsk stjórnvöld gruni Samherja um að vera að reyna að komast framhjá þeim lögum með því að fela raunverulegt eignarhald á Eskøy með lánveitingum.
Ingebrigtsen sagði við Dagens Næringsliv í gær að hann væri ekki jákvæður í garð Samherja. „Þetta fyrirtækið er með laskað mannorð. Í Noregi hafa skip sem þeir eiga oftsinnis verið stöðvuð af landhelgisgæslunni, sem er auðvitað óheppilegt. Meiri áhersla verður lögð á slík mál í framtíðinni þegar samþykki verður veitt fyrir breytingum á eignarhaldi.“
Í skriflegu svari til norska viðskiptablaðsins sagði Margrét Ólafsdóttir, talskona Samherja, að það valdi Samherja vonbrigðum að norski sjávarútvegsráðherrann segi að samstæðan sé með „laskað mannorð“. Hún segir orð ráðherrans vera „mjög ósanngjörn“.
Fjárfestingin í Eskøy var ekki fyrsta fjárfesting Samherja í norskum útgerðum. Fyrir um sjö árum síðan keypti samstæðan, í gegnum dótturfélög, fimmtungshlut í útgerðarfélaginu Nergård, sem er meðal stærstu útgerða Noregs.