Hollenski vinnumarkaðshagfræðingurinn Guido Imbens, ásamt bandarísku hagrannsóknarmönnunum David Card og Joshua Angrist, hlutu Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár. Þetta kom fram í tilkynningu frá Sænsku vísindaakademíunni sem birtist í morgun.
Samkvæmt tilkynningunni eru tvær meginástæður að baki verðlaunagjöfinni. Önnur þeirra er sú að þeir hafa þróað nýjar tölfræðiaðferðir til að meta orsök og afleiðingu í sögulegum gögnum, en hin þeirra er sú að þessar aðferðir hafa leitt til stórra uppgötvana fyrir vinnumarkaðinn.
Náttúrulegar tilraunir
Í hagfræðinni, sem og öðrum félagsvísindagreinum, er erfiðara að sannreyna kenningar með tilraunum heldur en í raunvísindagreinum. Ástæðan er sú að stórfelldar tilraunir á hegðun manna eru venjulega illframkvæmanlegar, sérstaklega þegar meta á áhrif á samfélagið í heild sinni.
Nýtitluðu Nóbelsverðlaunahafarnir Imbens og Angrist hafi hins vegar sýnt að hægt sé að notast við aðrar aðferðir til að meta sannleiksgildi hagfræðikenninga. Með því að leita aftur í sögulega atburði sem höfðu mismikil áhrif á hagi fólks er hægt að meta áhrif breytinganna með svipuðum hætti og gert er í klínískum rannsóknum. Slíkir atburðir eru kallaðar náttúrulegar tilraunir.
Hærri lágmarkslaun og fleiri innflytjendur ekki slæmt fyrir vinnumarkaðinn
Til að mynda sýndi Card, ásamt öðrum, hvernig hærri lágmarkslaun höfðu áhrif á vinnumarkaðinn með því að skoða áhrif launahækkunar í einu ríki Bandaríkjanna á tíunda áratugnum. Samkvæmt þeirri rannsókn hafði launahækkunin engin neikvæð áhrif á atvinnustigið, þvert á það sem vinsælar hagfræðikenningar á þeim tíma spáðu fyrir um.
Card skoðaði einnig áhrif mikilla fólksflutninga Kúbverja til Flórída í Bandaríkjunum á níunda áratugnum, en þeir leiddu til þess að vinnumarkaðurinn í borginni Miami stórjókst á einu ári, sérstaklega á meðal þeirra sem voru ósérhæfðir. Samkvæmt hefðbundnum hagfræðikenningum gæti svona mikil aukning á vinnuafli haft neikvæð áhrif á laun og mögulega aukið atvinnuleysi en Card fann engar vísbendingar um að sú hafi verið raunin.
Peter Fredriksson, formaður Sænsku vísindaakademíunnar, segir í kynningunni að rannsóknir Card, ásamt þróunum Angrist og Imbens á tölfræðiaðferðum, hafi verið rík uppspretta af nýrri þekkingu. „Þeirra rannsóknir hafa bætt okkar getu til muna í að svara spurningum um orsakasamhengi ýmissa hluta, sem hefur til mikilla hagsbóta fyrir samfélagið,“ bætti hann við.