Bálstofur vítt og breitt um Kína eiga orðið í mestu erfiðleikum með að anna eftirspurn þar sem líkum nánast rignir inn í kjölfar stórrar bylgju af dauðsföllum vegna COVID-19. Heilbrigðisyfirvöld eiga að sama skapi í vandræðum með að anna eftirspurn sjúkra. Reynt er að koma fyrir sem flestum sjúkrarúmum á spítölum og setja upp aðstöðu til að taka á móti fólki til greiningar.
Eftir að hörðum samkomutakmörkunum vegna kórónuveirunnar var aflétt í Kína er COVID-19 að sækja verulega í sig veðrið meðal þjóðar sem er lítið bólusett, telur 1,4 milljarða manna í víðfeðmu landi þar sem erfitt getur reynst að veita heilbrigðisþjónustu. Ástandið virðist þó enn sem komið er verst í borgunum, m.a. í Peking. Þar anna bálstofur og líkhús þó enn eftirspurn en í öðrum borgum, m.a. Chongqing, þar sem 30 milljónir búa, er allt orðið yfirfullt og ekki hægt að taka við fleiri líkum að svo stöddu.
Flestir eru á því að skýringin á auknum fjölda andláta tengist COVID-19 en yfirvöld í Kína eru þó ekki á því. Þau segja að á þriðjudag hafi orðið þrjú staðfest andlát vegna sjúkdómsins og að um væri að ræða fyrstu dauðsföllin vegna hans í fleiri vikur.
Raun er það svo að frá því að heimsfaraldur COVID-19 braust út hafa aðeins 5.242 manneskjur látist af völdum hans samkvæmt opinberum tölum. Það er langan veg frá því sem gerst hefur í öðrum ríkjum heimsins.
Þess vegna efast flestir um að þetta sé rétt og telja að andlátin séu miklu fleiri.
Frá því að núll-stefnan svokallaða, það er að segja að stefna að engu smiti af kórónuveiru í landinu með mjög hörðum takmörkunum, var aflétt nýverið hafa sjúkrahús yfirfyllst af fólki og hillur apóteka standa tómar. Þetta tvennt þykir sterk vísbending um að eitthvað meiriháttar sé á seyði og flestir benda á kórónuveiruna.
Í fréttaskýringu Al Jazeera um málið er haft eftir sérfræðingum í smitsjúkdómum að um 60 prósent kínversku þjóðarinnar eigi eftir að sýkjast af COVID-19 á næstu mánuðum. Þá telja þessir sömu sérfræðingar að um 2 milljónir gætu látist.
Ríkisrekna dagblaðið Global Times afneitar ekki smitbylgjunni nú en hefur eftir sínum sérfræðingum að um 2,7 milljónir Kínverja gætu þurft á gjörgæsluinnlögn að halda á næstu mánuðum. Þess vegna væru sjúkrahús að efla starfsemi sína, m.a. með því að stækka gjörgæsludeildir. Í borginni Guangzhou á til að mynda að fjölga gjörgæslurýmum úr 455 í 1.385. Þá segir dagblaðið að búist sé við því að bylgjan nái hámarki snemma í janúar.
Einnig hefur blaðið eftir heimildarmönnum sínum að koma eigi fyrir greiningarstöðvum víðs vegar í borgum, m.a. á íþróttaleikvöngum. Í Shanghai hefur verið komið upp yfir 2.500 básum þar sem fólk getur látið mæla hita og farið í PCR-próf.