Kristian Jensen, nýr utanríkisráðherra Danmerkur, kynnti þýskum kollega sínum á fundi þeirra í Berlín í morgun að Danmörk vilji endurvekja landamæraeftirlit á sameiginlegum landamærum landanna. Frá þessu er meðal annars greint á vef Berlinske.
Danmörk er, rétt eins og Þýskaland, aðili að Evrópusambandinu (ESB) og þar af leiðandi Schengen-sáttmálanum um ytri landamæri Evrópu. Þar er kveðið á um frelsi allra til að ferðast yfirlandamæri aðildarríkja án þess að framvísa leyfum. Slíkt þarf aðeins að gera á ytri landamærum álfunnar.
Jensen segir ný stjórnvöld vilja útfæra landamæraeftirlit innan Schengen-reglanna. „Við munum eiga samtal við Brussel og framkvæmdstjórn ESB, en einnig nágrannalönd okkar,“ sagði hann eftir fund sinn við Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, í dag.
Hert landamæraeftirlit mun að sögn utanríkisráðuneytis Danmerkur miða að því að hamla för ólöglegra innflytjenda og smyglara. Því verði ekki sett upp landamærahlið heldur sérstakar eftirlitsstöðvar reistar í nágrenni landamæranna.
Síðast þegar hægristjórn var við völd í Danmörku árið 2011 voru sett upp tollhlið á landamærum til Danmerkur. Vinstristjórn Helle Thorning-Schmidt felldi lög um þau úr gildi þegar hún komst til valda síðla árs 2011.
Ný ríkisstjórn bláu fylkingarinnar tók við í Danmörku á sunnudag eftir að ríkisstjórn vinstriflokkanna í rauðu fylkingunni féll í þingkosningum á dögunum. Hægriflokkurinn Venstre er nú í minnihlutastjórn eftir að viðræður við danska Þjóðarflokkinn runnu út í sandinn. Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre og forsætisráðherra, þarf þó á stuðningi Þjóðarflokksins að halda til að stjórn hans haldi í þinginu.
Þjóðarflokkurinn, sem nú er stærsti flokkur bláu blokkarinnar, vill stöðva flæði innflytjenda til Danmerkur.
Minnihlutastjórn Lars Løkke Rasmussen er sú minnsta í áratugi í Danmörku. Flokkur hans Venstre þarf að reiða sig á stuðning danska Þjóðarflokksins til að koma lögum í gegnum þingið. (Mynd: EPA)