Hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar, sem verður skráð á markað í síðar í þessum mánuði, lauk í gær. Alls voru til sölu 498,6 milljónir hluta, alls 29,3 prósent í félaginu, en rúmlega tvöföld eftirspurn varð eftir hlutum. Þeir nálægt 6.500 aðilar sem skráðu sig fyrir hlut sóttust eftir að kaupa fyrir um 60 milljarða króna en selt var fyrir 29,7 milljarða króna. Útboðsgengi í tilboðsbók A var 58 krónur á hlut en 60 krónur á hlut í tilboðsbók B. Miðað við þetta verð er heildarvirði Síldarvinnslunnar 101,3 milljarðar króna.
Eftir hlutafjárútboðið eru hluthafar í Síldarvinnslunni, sem er eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins og heldur á 7,7 prósent af úthlutuðum aflaheimildum, tæplega sjö þúsund talsins.
Gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu er 20. maí 2021 og er áætlað að afhenda kaupendum hluti í Síldarvinnslunni þann 26. maí 2021 að undangenginni greiðslu. Þá mun nýr hluthafalisti birtast og í ljós kemur hverjir það voru sem keyptu sig inn í félagið.
Áætlað er að viðskipti með hlutabréf í Síldarvinnslunni hefjist 27. maí 2021 en Nasdaq Iceland mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag með hlutabréfin með minnst eins viðskiptadags fyrirvara.
Samherji og Kjálkanes seldu mest
Seljendur hluta voru stærstu eigendur Síldarvinnslunnar og helstu stjórnendur hennar.
Samherji hf., stærsti eigandi Síldarvinnslunnar, fær um 12,2 milljarða króna af þeirri upphæð sem selt var fyrir í sinn hlut og Kjálkanes, félag í eigu Björgólfs Jóhannssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum, fær 12,2 milljarða króna sömuleiðis.
Eignarhaldsfélagið Snæfugl, sem er meðal annars í eigu Samherja og Björgólfs, seldi hluti fyrir einn milljarð króna og Síldarvinnslan fékk um 738 milljónir króna fyrir þá eigin hluti hennar sem hún seldi.
Samherji verður áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar þrátt fyrir að selja ofangreindan hlut í henni með 32,6 prósent eignarhlut. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar. Kjálkanes mun áfram eiga 19,2 prósent og Snæfugl mun áfram eiga 4,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni.
Saman fara þessi þrjú félög, sem skipa þrjá af fimm stjórnarmönnum í Síldarvinnslunni eins og er og Samkeppniseftirlitið rannsakar hvort að eigi að skilgreinast sem tengdir aðilar, með 56,1 prósent hlut, og þar með meirihluta í Síldarvinnslunni. Virði þess hlutar miðað við útboðsgengi er 56,8 milljarðar króna.
Stjórnendur hagnast vel á nokkrum mánuðum
Þá seldi félagið Hraunlón hluti fyrir um 608 milljóna króna.
Í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar kemur fram að Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, Axel Ísaksson og Jón Már Jónsson, sem allir eiga sæti í framkvæmdastjórn Síldarvinnslunnar séu eigendur Hraunlóns. Þeir keyptu félagið í lok árs 2020.
Alls á Hraunlón um 27,5 milljónir hluta í Síldarvinnslunni og greiddi fyrir þann hlut um 640 milljónir króna fyrir nokkrum mánuðum síðan. Sá hlutur er nú metinn á 1.595 milljónir króna og hefur því hækkað um 955 milljónir króna á fjórum mánuðum. Hraunlón er að selja 37 prósent af eign sinni og fékk, líkt og áður sagði, 608 milljónir króna fyrir. Áfram mun félagið eiga um eitt prósent í Síldarvinnslunni sem er metið á um einn milljarð króna.
Hraunlón var áður í jafnri eigu Einars Benediktssonar, fyrrverandi forstjóra Olís, og Gísla Baldurs Garðarssonar lögmanns. Samherji fjárfesti í Olís árið 2012 þegar þeir tveir áttu félagið að fullu og árið 2017 voru þeir að öllu leyti keyptir út úr Olís, meðal annars af Samherja. Olís rann síðar saman við smásölurisann Haga.