Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk í dag „skýr skilaboð“ frá Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um að nýjar reglur ESB um útflutningshömlur á bóluefni muni ekki hafa áhrif á afhendingar bóluefna til Íslands frá aðildarríkjum ESB, í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið sendu frá sér í sameiningu í kvöld, en fréttir hafa í kvöld verið fluttar af því að ESB ætli sér að banna flutning á bóluefni til Íslands. Þetta er hins vegar ekki rétt, samkvæmt stjórnvöldum.
Í tilkynningu ráðuneytanna tveggja segir að ekki sé ástæða til að ætla að nýrri reglugerð ESB verði beitt gegn Íslandi né að hún hafi einhver áhrif á afhendingar bóluefna til Íslands.
Samkvæmt fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB um reglugerðarbreytingarnar er Ísland þó eitt 17 ríkja sem ESB gæti beitt útflutningshömlum gagnvart við ákveðnar aðstæður. Tvær ástæður gætu verið fyrir því að ESB beiti þessum útflutningshömlum, samkvæmt tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.
Í fyrsta lagi hyggst ESB byrja að skoða hvort landið sem verið er að flytja bóluefni til sé með hömlur á eigin útflutningi bóluefna eða hráefna í bóluefni, ýmist með lögum eða öðrum leiðum. Í annað stað hyggst ESB byrja að meta hvort aðstæður í landinu sem flytja á bóluefni til séu betri eða verri en í ríkjum ESB, hvað stöðu faraldursins varðar, hlutfall bólusettra og aðgang að bóluefnum.
Bretar telja að þessar útflutningshömlur beinist sérstaklega gegn þeim og það er ekki ósennileg túlkun.
Samkvæmt frétt Politico, sem birtist undir kvöld, hafa Bretland og Evrópusambandið þó heitið því að vinna að því að bæta samskipti sín á milli hvað bóluefni varðar og sent frá sér sameiginlega en innihaldsrýra yfirlýsingu um að samstarf sé mikilvægt og að viðræðum verði haldið áfram með það að markmiði að ná fram niðurstöðu sem allir hagnist á.
Útflutningshömlur myndu fara gegn EES-samningnum
Í tilkynningu íslenskra stjórnvalda segir að mögulegar útflutningshömlur af því tagi sem ESB boðar, til Íslands eða annarra EFTA-ríkja, gangi í berhögg við EES-samninginn. Noregur er einnig á listanum og er EFTA-ríki rétt eins og Íslands.
„Því hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra rætt við utanríkisráðherra Noregs til að stilla saman strengi og óskað atbeina utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar til að knýja á um skjóta lausn málsins. Mun hann eiga fleiri fundi með evrópskum ráðamönnum á morgun,“ segir í tilkynningu stjórnvalda.
Þessum skilaboðum hefur einnig verið komið skýrt á framfæri við framkvæmdastjórn ESB, samkvæmt tilkynningu stjórnvalda. Lögð er áhersla á að reglugerðinni verði breytt og Ísland formlega undanþegið útflutningshömlum, í samræmi við EES-samninginn.
Staðgengill sendiherra ESB á Íslandi var kallaður til fundar í utanríkisráðuneytinu í dag vegna þessa máls, samkvæmt tilkynningu stjórnvalda.