Mikilvægt er að vandaðar vísindarannsóknir fari fram á áhrifum gasmengunar á heilsu manna svo að hægt sé að skera úr um áhrif þeirra á heilsu, bæði til lengri og skemmri tíma. Nauðsynlegt er að slíkar rannsóknir hefjist sem fyrst.
Þetta kemur fram í grein Gunnars Guðmundssonar, lungnalæknis við lungnadeild Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands, „Eldgos og eitraðar lofttegundir“ í nýjasta riti Læknablaðsins.
Fram kemur í máli hans að kominn sé fram nýr ógnvaldur við heilsu manna á suðvesturhluta Íslands, eitraðar lofttegundir sem berast frá eldstöðinni í Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga. Vitað sé að þær geta valdið aukningu á öndunarfæraeinkennum og notkun innöndunarlyfja. Minna sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu.
Eins og alþjóð veit hófst eldgos í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn og hafa margar gossprungur opnast á þessu tímabili. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosinu en engin hætta stafar að byggð vegna þess.
Áhrif lofttegunda á heilsufar manna mismunandi
Gunnar rekur lauslega sögu eldgosa á Íslandi en hann segir að frá því að Ísland byggðist hafi orðið fjöldamörg eldgos á Íslandi. Þau hafi leitt til eyðileggingar á híbýlum manna, búferlaflutninga, matarskorts, og búfjárfellis vegna eyðileggingar á beitarlandi og eitrana. Þau hafi einnig valdið sjúkdómum og slysum sem leitt hafa til dauðsfalla. Eldgos hafa áhrif á umhverfi sitt með rennsli hrauna, gjóskufalli og útstreymi kvikugasa.
„Kvika er bergbráð með uppleystum lofttegundum. Gasið losnar úr kvikunni í gosopi og þegar kvika storknar á yfirborði og í gasmekki. Helstu gastegundirnar eru vatnsgufa (H2O), koldíoxíð (CO2) og brennisteinsdíoxíð (SO2) og yfirleitt er langmest af þeirri fyrstnefndu. Einnig losnar vetni (H2), brennisteinsvetni (H2S), kolmónoxíð (CO), og í litlu magni brennisteinn (S2), metangas (CH4), vetnisklóríð eða saltsýra (HCl) og vetnisflúoríð eða flúorsýra (HF),“ skrifar hann.
Bendir hann á að áhrif þessara lofttegunda á heilsufar manna séu mismunandi. Íslenskar reglugerðir skilgreini heilsuverndarmörk og vinnuverndarmörk mengandi lofttegunda í andrúmslofti fyrir íbúa Íslands. Hann segir að heilsuverndarmörk séu hugsuð fyrir almenning, bæði börn og fullorðna, sjúka sem heilbrigða. Þeim sé ætlað að vera viðmiðun fyrir hvað telst skaðlegt fyrir einstaklinginn til lengri tíma. Vinnuverndarmörk séu hæsta leyfilega meðaltalsmengun í andrúmslofti starfsmanna, gefið upp fyrir 8 klukkustundir og einnig fyrir 15 mínútna viðveru. „Í náttúruhamförum eins og eldgosum getur loftmengun farið langt yfir bæði þessi mörk,“ segir hann.
Aukning á komum á heilsugæslu vegna öndunarfæraeinkenna
Gunnar útskýrir að áhrifum lofttegunda megi skipta í tvennt. „Í fyrsta lagi eru lofttegundir sem erta slímhúðir og húð. Í lágum styrkleika valda þær ertingu í augum og efri hluta öndunarfæra. Í hærri styrk valda þær ertingu og bruna í húð og í enn hærri styrk hafa þær áhrif á neðri hluta öndunarfæra og geta valdið lungnabjúg vegna bráðs lungnaskaða. Dæmi um slíkar lofttegundir eru brennisteinsdíoxíð og brennisteinssýra. Í öðru lagi eru lofttegundir sem valda köfnun vegna áhrifa á flutning súrefnis og frumuöndun. Dæmi um þær eru koldíoxíð og kolmónoxíð,“ skrifar hann.
„Mesta bráðahættan skapast af lofttegundum sem eru þyngri en andrúmsloftið og geta því borist með jörðu og fyllt svæði sem eru lægri, eins dældir og dali í náttúrunni eða kjallara húsa. Brennisteinsdíoxíð og koldíoxíð eru dæmi um slíkar lofttegundir. Í eldgosinu í Holuhrauni árið 2015 kom upp mikið magn brennisteinsdíoxíðs,“ skrifar hann og bætir því við að nýlega hafi verið birtar greinar um áhrif þess á heilsu manna.
Þar komi fram að aukning hafi orðið á komum á heilsugæslu vegna öndunarfæraeinkenna og meira verið leyst út af innöndunarlyfjum. „Þar kom fram að loftmengun getur varað lengur en áður var talið, meðal annars vegna þess að kvikugösin geta verið til staðar lengur en talið var.“
Gunnar bendir á að embætti landlæknis, Almannavarnir, Veðurstofa Íslands, Umhverfisstofnun og fleiri aðilar standi að nákvæmri vöktun eldstöðvanna í Geldingadölum. Þannig hafi mælakerfi Umhverfisstofnunar sem mælir loftmengun verið stóraukið og upplýsingaflæði frá þeim verið bætt stórlega. Veðurstofa Íslands uppfærir daglega spá varðandi gasmengun vegna eldgossins við Fagradalsfjall og birti spálíkan sem sýnir brennisteinsmengun í byggð fyrir næstu 72 tíma.
Enn fremur fylgist embætti landlæknis náið með heilsufari þeirra sem búa næst gosstöðvunum og lyfjanotkun þeirra.