Tæpir tveir mánuðir eru síðan innrás rússneska hersins í Úkraínu hófst. Volodomír Zelenskí, forseti Úkraínu, hét því að vera um kyrrt og berjast „Við munum verja okkur, og þegar þið gerið árás munuð þið sjá andlit okkar. Ekki bök okkar, heldur andlit,“ sagði Zelenskí í sjónvarpsávarpi 24. febrúar, daginn sem innrásin hófst.
Ríkisstjórn Zelenskí óskaði eftir fjárframlögum frá heimsbyggðinni til að takast á við verkefnið sem fram undan var. Almenningur svaraði kallinu og samkvæmt upplýsingum frá úkraínskum yfirvöldum hafa yfir 70 milljónir safnast, aðeins í rafmynt.
Aldrei fleiri svikamyllur skilgreindar af netöryggisfyrirtækjum
Svikarar og netglæpamenn sáu sér fljótt leik á borði og nýta sé nú andlit annars fólks til að hagnast á stríðinu. Netöryggisfyrirtæki hafa fundið slóð tölvupóstssamskipta þar sem óskað er eftir fjárframlögum til stuðnings þeirra sem þjást vegna stríðsins í Úkraínu. Alls hafa um 2,8 milljónir aðgangar þar sem óskað er eftir stuðningi í formi rafmyntar verið skilgreindir af netöryggisfyrirtækjum sem svikamyllur og hafa aldrei verið fleiri.
„Einhverjir eru að hagnast á þessu og ég hafði það á tilfinningunni að fólk myndi falla fyrir þessu og fólk er að falla fyrir þessu,“ segir Ax Sharma, starfsmaður hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Sonatype. Hann hefur rannsakað slóð tölvupósta. Hannah Gelbart, rannsóknarblaðamaður sem sérhæfir sig í upplýsingaóreiðu á heimsvísu, hefur fylgt stafrænni slóð nokkurra netglæpamanna sem hafa það að markmiði að hagnast á stríðinu í Úkraínu og naut aðstoðar Sharma.
„Það er allt rangt við þetta“
Í einum tölvupóstinum eru óskað eftir fjárframlögum í nafni barnalæknaþjónustu í Kharkív, sem átti að hafa eyðilagst í loftárásum Rússa á borgina. Eftir nánari athugun kom í ljós að engin barnalæknaþjónusta sem passaði við lýsinguna í tölvupóstinum væri til. Eftir öfuga myndaleit af lækni sem á að starfa hjá þjónustunni kom upp mynd af mexíkóskum lækni.
„Þessi manneskja er að nota myndina af mér og mína persónu til að biðja um peninga. Það er allt rangt við þetta,“ segir Miguel Ángel Minero Hibert, barnalæknir í Mexíkóborg. Hann segir það mikil vonbrigði að einhverjir geti hugsað sér að fara þessa leið til að afla fjár.
Fólk getur ekki treyst hvert peningarnir fara
Átta þúsund kílómetrum frá þungamiðju átakanna býr Lindsey Novak-Duchaine. Hún á tvo vini í Úkraínu sem þurfa nú að gegna herskyldu og vildi hún gera eitthvað til að leggja sitt af mörkum. Hún útbjó ýmsan varning og setti á sölu og kynnti framtakið á Twitter.
„Ég komst að því að einhver var að nota prófílmyndina mína og byrjaði að tísta eins og ég og óskuðu eftir fjárframlögum frá nokkrum fylgjenda minna,“ segir Lindsey. Hún tilkynnti aðganginn til Twitter sem eyddi honum. Lindsey segist skilja að fólk haldi aftur af sér þegar kemur að því að styðja við góð málefni. Fólk getur ekki treyst hvert peningar þess fer.
„Hættið, þið bara verðið að hætta“
Upplýsingar um fjárupphæðir sem safnast hafa í formi rafmyntar til góðagerðamála eru opinberar. Það var því lítið mál fyrir rannsóknarblaðamanninn Gelbart að komast að því hversu miklu hafði verið safnað í nafni Lindsey. Niðurstaðan: Tæpir 600 dollarar.
Það er kannski ekki há upphæð en þegar litið er til þess að aðgangar líkt og þessir telja nærri þremur milljónum verður málið öllu alvarlegra. Merki þessi efnis að um svik séu að ræða eru auðþekkjanleg. Mismunandi netföng eftir því hver sendandinn er og netfangið sem kemur þegar hafa á samband við góðgerðarfélagið eru til að mynda dæmi um að ekki sé allt með felldu.
Einnig eru dæmi um að svikasíður séu settar upp í nafni stórra alþjóðlegra mannúðarsamtaka líkt og UNICEF. Aðspurður hvaða skilaboð ætti að senda til svikaranna og netglæpamannann segir talsmaður UNICEF þau einföld: „Hættið, þið bara verðið að hætta. Fólk þarf á þessum fjárframlögum að halda, tafarlaust, til að halda lífi og komast í öruggt skjól.“