Núverandi úthlutunarkerfi á afgreiðslutímum flugvalla í Evrópu er óskilvirkt og hamlar samkeppni á milli flugfélaga. Lággjaldaflugfélög hafa brugðist við þessari óskilvirkni með því að fljúga til smærri flugvalla, en það hefur gjörbreytt markaðnum fyrir flug. Þetta skrifar Þórunn Helgadóttir, hagfræðingur hjá Compass Lexecon í Madríd, í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Kerfið hyglir eldri flugfélögum
Í grein sinni fer Þórunn yfir stýringu evrópska flugnetsins og hagræn áhrif þess, auk áhrifanna sem innkoma lággjaldaflugfélaga hefur haft á markaðinn á síðustu árum. Samkvæmt henni hefur kerfið sem er notað til að úthluta afgreiðslutímum á flugvöllum í álfunni verið gagnrýnt fyrir að hamla samkeppni og nýtast einkum eldri flugfélögum.
Í kerfinu búa eldri flugfélög, sem fengu upphaflega úthlutað afgreiðslutímum á mikilvægum tengihöfnum líkt og Charles de Gaulle í París eða Heathrow í London, yfir miklum verðmætum þar sem þau hafa forgangsrétt að sínum plássum. Þetta gerir lággjaldaflugfélögunum erfitt fyrir að ná afgreiðslutíma á stóru flugvöllunum.
„Draugaflug“ eru samkeppnishamlandi
Réttur flugfélaganna til að halda sínum afgreiðslutíma hefur hins vegar verið í hættu vegna lítillar eftirspurnar eftir flugferðum í kjölfar heimsfaraldursins, en samkvæmt úthlutunarkerfinu þurfa þau að nýta ákveðið hlutfall af sínum lendingar- og brottfarartímum. Vegna þess hafa félögin tekið upp á því að fljúga tómum vélum á milli flugvalla í svokölluðum „draugaflugum“.
„Slík flug fela augljóslega í sér mikla sóun og stangast á við umhverfismarkmið Evrópusambandsins að draga úr losun,“ segir Þórunn í greininni sinni. Einnig bendir hún á að athæfið sé samkeppnishamlandi og þar af leiðandi skaðlegt neytendum, þar sem það kemur í veg fyrir að önnur flugfélög geti nýtt sér afgreiðslutímana.
Betri sætanýting með litlum flugfélögum
Svar lággjaldaflugfélaganna við þessu samkeppnishamlandi úthlutunarkerfi er að lenda á svokölluðum aukaflugvöllum, líkt og Gatwick hjá London og Orly hjá París, þar sem lendingagjöld eru almennt lægri og ólíklegra er að tafir verði á flugi vegna minni umferðar.
Þórunn segir innkomu lággjaldaflugfélaga hafa gjörbreytt markaðnum fyrir flug með því að bjóða upp á tíðar ferðir á lágu verði sem byggir oftast á beinu flugi milli áfangastaða. Sætanýting er einnig betri hjá lággjaldaflugfélögum, sem leiðir til þess að útblástur á hvern seldan sætiskílómetra hefur dregist saman.
Þó bætir Þórunn við að túlka þurfi þessar tölur varlega þar sem flugumferð hafi aukist vegna tilkomu lággjaldaflugfélaga, en með meiri flugumferð hefur losun á kolefnisútblæstri sömuleiðis aukist.
Áhugavert útspil hjá PLAY
Þórunn nefnir einnig áform PLAY um að hefja flug til New York í greininni sinni, þar sem flugfélagið hyggst fljúga til aukaflugvallar sem er í nokkurri fjarlægð frá borginni. Með því segir hún að félagið sé að feta í fótspor annarra lággjaldaflugfélaga sem hafa gefist upp á baráttunni um afgreiðslutíma á stærstu tengihöfnunum sem Icelandair hefur aðgang að.
„Það verður áhugavert að sjá hvernig farþegar bregðast við þessu útspili,“ segir Þórunn og bætir við að lendingargjöld eigi að vera um 80 prósentum lægri á aukaflugvellinum heldur en á öðrum flugvöllum í New York. „Hvort það sé nóg til að vega upp á móti smærri markaði sem þeim býðst á aukaflugvelli þarf tíminn að leiða í ljós,“ segir hún einnig.
Hægt er að lesa grein Þórunnar í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.