„Við erum að fylgjast með eldgosi sem kemur upp fyrir um miðju gangsins sem hefur verið að myndast síðustu vikurnar samhliða mikilli jarðskjálftahrinu. Undanfarna sólarhringa höfum við séð að það dró úr skjálftavirkninni og það er eins og kvikan hafi smám saman verið að fylla inn í þetta pláss og svo er yfirþrýstingur sem veldur því að hún kemur þarna út í litlu gosi.“
Þetta sagði Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvársviðs Veðurstofunnar á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Hún sagði líklega ekki ástæðu til að halda að í kjölfar eldgossins verði mikil jarðskjálftavirkni. Vísindamenn ættu síður von á stærri skjálftum. „ En áfram er fylgst með breytingum og sömuleiðis í aflögun sem við mælum með gervitunglum og gps-mælingum.“
Í ljósi sögunnar má ætla að langt tímabil jarðhræringa sé framundan. Síðast gaus á Reykjanesi fyrir 781 ári en mun lengra er liðið frá því að eldgos varð í Fagradalskerfinu. Að minnsta kosti 6.000 ár eru liðin frá því.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði eldgosið töluverð tíðindi því ekki hafi gosið á Reykjanesskaga í tæplega 800 ár. „Verðum að túlka þetta sem svo að það sé hafið nýtt eldgosatímabil á skaganum.“ Hann sagði þó engar hamfarir að hefjast en engu að síður væru þessar jarðhræringar eftirtektarverðar. „Þetta er eitt minnsta gos sem sögur fara af, ef svo má að orði komast,“ sagði hann.
Hraunið er mest tíu metrar á þykkt. Um 0,2-0,3 milljón rúmmetrar af kviku hafa komið upp á þeim 16 klukkustundum sem liðnar eru frá upphafi gossins og rennslið því „verið svipað og í Elliðaánum,“ sagði Magnús Tumi og benti á að gosið væri 3-4 sinnum minna en það sem varð á Fimmvörðuhálsi og aðeins um einn hundraðshluti af Holuhraunsgosinu.
Þessu gosi mætti ef til vill líkja við fyrsta gosið í Kröflueldum. Staðsetning þess í Geldingadal er mjög hagstæð. „Þetta er eins og baðker og það lekur aðeins í baðkarið. Í sjálfu sér ekki alvarlegur atburður sem slíkur.“
En atburðurinn er ekki búinn og enn á eftir að koma í ljós hvernig hann þróast.
Eitruðu gösin sem eru að koma upp í gosinu geta sest niður í dældir í Geldingadal og nágrenni, dal sem er í raun lokuð dæld. Og ef það er logn „þá verður þetta dauðagildra,“ sagði Magnús Tumi. Brýndi hann fyrir fólki að nálgast gosstöðvarnar af virðingu.
Um 30 kíló af gasi á sekúndu
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur sagði að um 30 kíló af gasi á sekúndu kæmu upp í eldgosinu. Það er mun minna en gerðist í Holuhraunsgosinu til dæmis. Ekki er að hennar sögn hætta á gasmengun í byggð að minnsta kosti næstu daga.
Benti hún á að veðrið væri að snúast í suðvestanátt og jafnvel slyddu. „Þannig að talsverð vosbúð er hreinlega fyrir gangandi á þessum slóðum og ég mæli ekki sérstaklega með því að fólk leggi í þessa 6-7 tíma göngu.“ Þeir sem ætli sér að svæðinu þurfi að hafa gasmæla meðferðis, ekkert vit væri í öðru.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn biðlaði til þeirra sem ætluðu sér að skoða gosið að fara varlega og benti á að mun betri aðstæður væru heima í stofu til að fylgjast með því. Á vefmyndavélum mætti sjá að nýjar lænur af hrauni myndist annað slagið og renni hratt fram. Þá sýndi reynslan frá Fimmvörðuhálsi að nýjar sprungur geti opnast og því brýnt að „fara mjög varlega“.
Hann hvatti fólk „til að poppa og horfa á þetta heima í vefmyndavélunum“.
Á fundinum voru jarðvísindamennirnir spurðir um framhaldið. Magnús Tumi sagði líklegast að gosið hægi á sér og fjari út. En það gæti staðið í einhverja daga og jafnvel vikur. „Við vitum það ekki“. Svo gæti ný umbrotahrina hafist seinna. „En miðað við söguna á skaganum mun þetta ekki gerast rosalega hratt.“
Síðustu eldar á Reykjanesskaga áttu sér stað á 12. öld. Í þeim mynduðust hraunin sem Bláa lónið og orkuverið í Svartsengi standa á. Þá runnu þrjú hraun á 10-15 ára tímabili.
Annað gostímabil var á 10. öld. Þá gaus 6-8 sinnum á um 50-100 árum. Síðasta hrinan á Reykjanesi byrjaði með tveimur gosum í Krýsuvíkurkerfinu um árið 800. „Síðan gerist ekkert í hundrað ár.“
Þegar talað er um síðustu goshrinu þá er verið að tala um tímabil sem stóð yfir í um 400 ár. Í henni kom um 50 prósent meira af gosefnum en í Holuhraunsgosinu einu saman. Svo að umfangið að því leytinu til var ekki mikið. „Við höfum enga hugmynd um hvernig atburðarásin verður. Við vitum hins vegar í stórum dráttum hvernig næstu aldir verða,“ sagði Magnús Tumi.
Kristín sagði að miðað við stöðuna í augnablikinu væri líklegast að gosið héldi áfram í einhverja daga. „Þá er ekki útilokað að það gerist eitthvað meira. Komi upp meiri kvika eða það verði gos einhvers staðar annars staðar á sprungunni. Þetta eru þættir sem við fylgjumst með næstu daga.“