Barbara Mikulski, öldungardeildarþingmaður í Bandaríkjunum, hefur lýst yfir stuðningi við Íranssamkomulagið um kjarnorku. Hún er 34. þingmaðurinn sem styður samkomulagið sem þýðir að Barack Obama Bandaríkjaforseti getur andað léttað, því 34 þingmenn tryggja að samkomulagið verður samþykkt í þinginu.
Hagsmunaöfl vestanhafs hafa lagt mikið kapp á að sannfæra þingmenn demókrata um að styðja eða fella samkomulagið en stuðningur Mikulski er talið vera tákn um að andstæðingum samkomulagsins hafi mistekist að fylkja óákveðnum demókrötum með sér.
Aðeins tveir þingmenn demókrata hafa þegar lýst því yfir að þeir muni fella samkomulagið við Íran en auk þeirra eru allir repúblikanar eru andvígir samkomulagi Obama við stjórnvöld í Íran. Til að geta fellt ákvörðun Obama úr gildi þurfa tveir þriðju hlutar þingmanna að kjósa gegn samkomulaginu.
Samkomulag Bandaríkjanna, og hinna ríkjanna í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna auk Þýskalands og Evrópusambandsins, við Íran felur í sér að Íranir falla frá áformum sínum um áframhaldandi auðgun úrans og stöðva kjarnorkuáætlun sína gegn því að þessi öflugustu ríki heims létti viðskiptaþvingunum sínum á landið.
Tilkynnt var um samkomulagið 14. júlí og hefur bandaríska þingið til 17. september til að hafna samkomulaginu. Verði samkomulaginu hafnað af þinginu getur Obama beitt neitunarvaldi sínu, en um leið getur hann tímabundið ekki aflétt viðskiptaþvingunum í takt við samkomulagið. Forsetinn hefur lofað að beita neitunarvaldinu verði samkomulagið fellt. Til þess að fella neitun forseta úr gildi þurfa tveir þriðju þingmanna að kjósa svo. Staða Mikulski með samkomulaginu gerir það hins vegar ómögulegt að samkomulagið verði ekki á endanum samþykkt.