Barack Obama Bandaríkjaforseti fagnar samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írans, sem tilkynnt var um í morgun. Hann segir að það væri óábyrgð að samþykkja ekki samkomulagið, þótt hann myndi fagna hraustlegum umræðum í þinginu. Hann sagði að með samkomulaginu væri búið að koma í veg fyrir dreifingu vopna á svæðinu og samkomulagið stæðist allar kröfur sem Bandaríkin hefðu gert. Nú væri búið að loka fyrir allar leiðir Írana til að búa til kjarnorkuvopn.
Hann minnti þingmenn á að samkomulag af þessu tagi gerðu menn ekki við vinaþjóðir. Ekki væri hægt að stroka út söguna, en það væri hægt að gera breytingar. „Þessi samningur býður okkur tækifæri til að fara í nýja átt, við ættum að grípa þetta tækifæri,“ sagði hann að lokum.
John Kerry utanríkisráðherra hefur tekið í sama streng. Hann segir að skref hafi verið stigið í átt frá átökum og möguleikanum á fjölgun kjarnorkuvopna. Hann segir þó jafnframt að ef Íran stendur ekki við samkomulagið verði refsiaðgerðir Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna innleiddar strax aftur.
Repúblikanar í Bandaríkjunum hafa hins vegar verið duglegir við að gagnrýna samkomulagið í dag, og sýna þar með fram á að Obama mun eiga í erfiðleikum með að koma samkomulaginu í gegnum þingið, þar sem Repúblikanar eru í meirihluta. Mike Huckabee, sem er einn þeirra er vilja verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, segir stjórnvöld í Bandaríkjunum eiga að skammast sín fyrir að samþykkja samning sem muni styrkja ill stjórnvöld í Íran í því að „stroka Ísrael út af kortinu“. Sem forseti myndi hann standa með Ísrael og skoða alla kosti í boði til að koma hryðjuverkastjórnvöldum í Íran frá völdum, þar með talið hernaðaríhlutun.
Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hélt blaðamannafund um samkomulagið fyrir skömmu. Þar kom fram að Ísrael væri óbundið af samkomulaginu sem var gert í morgun. Heimurinn sé hættulegri staður eftir samkomulagið, og Ísraelsmenn hafi fullan rétt til að verja sig fyrir Íran. „Íran heldur áfram að sækjast eftir eyðingu okkar,“ sagði hann.