Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur formlega tilkynnt að bandaríski herinn verði áfram með viðveru í Afganistan árið 2017 þótt dregið verði úr fjöldanum. Þannig er endanlega úti um loforð hans um að binda endi á stríðið í Afganistan á meðan hann er forseti. Hann segist samt sem áður ekki styðja hugmyndina um „endalaust stríð“.
Áætlanir höfðu verið uppi um að draga til baka allt herlið nema mjög fámennt lið tengt sendiráði Bandaríkjanna í Afganistan fyrir lok næsta árs. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að 5.500 manna herlið verði áfram í landinu, en herliðið telur tæplega tíu þúsund nú.
Búist hafði verið við þessu, og fjölmiðlar raunar greint frá því að þetta stæði líklega til. Tilkynningin kemur í kjölfar sóknar talibana í landinu, meðal annars náðu þeir tímabundnum yfirráðum yfir Kunduz seint í september. Þegar Kunduz féll í hendur talibana var það skellur fyrir afgönsk stjórnvöld og bandaríska herinn sömuleiðis. Á meðan á umsátri um Kunduz stóð sprengdu Bandaríkjamenn spítala Lækna án landamæra, með þeim afleiðingum að tíu sjúklingar á spítalanum og tólf starfsmenn Lækna án landamæra létu lífið. Bandaríkjamenn hafa beðist afsökunar á því en Læknar án landamæra vilja fá óháða rannsókn á því hvernig þetta gerðist. Afganski stjórnarherinn náði Kunduz aftur á þriðjudaginn.
Bandarísk stjórnvöld hafa einnig lýst yfir áhyggjum af því að Íslamska ríkið færi sig upp á skaftið í Afganistan og fái til liðs við sig talibana.
Með þessari tilkynningu Obama í dag virðist ljóst að viðvera Bandaríkjahers í Afganistan er orðin að kosningamáli fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Eins og Guardian bendir á verður næsti forseti sá þriðji til þess að hafa yfirumsjón með stríðinu í Afganistan. Þangað til nú hefur Afganistan ekki verið áberandi í kosningabaráttunni, og var til dæmis ekkert rætt í fyrstu kappræðum demókrata og mjög stuttlega í tvennum kappræðum repúblikana.