Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir það ekki geta talist eðlilegt, undir nokkrum kringumstæðum, að formaður starfshóps sem falið var að draga saman efni um stöðu orkumála tali fyrir öfgafyllstu sviðsmyndinni úr skýrslunni umfram aðrar, þá sem kallar á mesta orkuöflun.
Formaðurinn sem um ræðir er Vilhjálmur Egilsson, sem er fyrrverandi rektor á Bifröst, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur var formaður starfshóps sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuráðherra skipaði í byrjun árs til að vinna svokallaða grænbók um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum með vísan til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Hann vinnur nú hins vegar að kynningarmálum fyrir Vestanátt, samtök fyrirtækja sem áforma vindorkuver á Vesturlandi. Í síðustu viku stýrði hann og hafði framsögu á þremur opnum fundum þar sem fyrirtækin auk Norðuráls kynntu áform sín. Blaðamaður Kjarnans sat einn þessara funda og fjallaði um hann í greininni „Lukkuriddararnir“ í bakgarðinum í byrjun viku.
Formaður grænbókarinnar talar fyrir sviðsmyndinni „sem gengur freklegast fram“
Orri Páll vakti athygli á starfi Vilhjálms fyrir Vestanátt undir liðnum störf þingsins á Alþingi í morgun.
„Í ríkisstjórnarsáttmála segir að mikilvægt sé að breið sátt ríki um uppbyggingu vindorkuvera. Nú les maður og heyrir úr fjölmiðlum að formaður téðs starfshóps um stöðuskýrslu gangi erinda fjögurra fyrirtækja sem hafa uppi stórtæk vindorkuáform á Vesturlandi undir heitinu Vestanáttin og tali fyrir þeirri sviðsmynd úr stöðuskýrslunni sem gengur freklegast fram eins og hún sé hinn eini rétti sannleikur,“ sagði Orri Páll.
Starfshópurinn, sem Vilhjálmur fór fyrir, skilaði tillögum í mars. Orri Páll segist hafa bundið vonir um að stöðuskýrslan myndi skýra málið frekar og „hjálpa okkur að komast lengra í átt að þeim mikilvæga áfanga að átta okkur á hver raunveruleg orkuþörf okkar væri með tilliti til loftslagsmarkmiða.“ Það hafi hins vegar ekki verið niðurstaðan.
Orri Páll sagði að „eðli málsins samkvæmt“ mætti sú sviðsmynd nefndarinnar sem gengur hvað lengst réttmætri gagnrýni. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir ríflega tvöföldun raforkuframleiðslu Íslands, 124 prósenta aukningu til ársins 2040.
Verin á Vesturlandi „gætu verið hluti lausnarinnar“
Á umræddum kynningarfundi Vestanáttar í síðustu viku var Frímann Snær Guðmundsson, hagfræðingur hjá Deloitte, meðal framsögumanna. Hann kynnti úttekt um nýtingu vindorku á Vesturlandi sem unnin var fyrir Vestanátt. Hann sagði 24 þúsund gígavattstundir, rúmlega tvöföldun á núverandi orkuframleiðslu Íslands, vera „gífurlega stórar tölur“ sem jafnist á við 5-6 Norðurál. Vindorkuverkefni fyrirtækjanna fjögurra „gætu verði hluti lausnarinnar“.
24 þúsund gígavattstundir. Þessari tölu var ítrekað haldið á lofti á fundinum, sérstaklega í máli Vilhjálms. Að „væntingarnar“ standi til að ná svo mikilli framleiðsluaukningu, líkt og það sé meitlað í stein.
Sú er hins vegar ekki raunin. Í grænbókinni, sem starfshópur undir forystu Vilhjálms vann, voru dregnar upp sex sviðsmyndir sem hver fyrir sig á að endurspegla mismunandi áherslur í þróun samfélagsins og atvinnulífsins til næstu ára. Miðað við ítrustu forsendur, full orkuskipti í lofti, á hafi og í sjó, er áætlað að rúmlega tvöfalda þurfi núverandi framleiðslu til ársins 2040 – að framleiða þurfi 24 þúsund GWst á ári til viðbótar. Þetta er sú sviðsmynd sem lengst gengur og þarfnast flestra gígavattstunda. Þetta er reyndar nákvæmlega sú tala sem Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, komst að í sínum útreikningum sem lagðir voru fram í vinnu starfshópsins.