Í síðustu viku kom fram í niðurstöðum könnunar frá Gallup að fleiri en færri Íslendingar væru nú hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta var í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem fleiri mælast hlynntir aðild að ESB en andvígir í skoðanakönnun sem framkvæmd er á meðal íslensks almennings.
Þetta hefur vakið nokkra athygli, sem eðlilegt er, enda mikill viðsnúningur frá fyrri könnunum Gallup sem og nýlegum viðhorfskönnunum MMR sem birst hafa reglulega um hug Íslendinga til Evrópusambandsins.
Síðasta mæling MMR, frá því í desember, sýndi 30,7 prósent stuðning við inngöngu Íslands í Evrópusambandið og 44,1 prósents andstöðu. Hin nýja könnun Gallup, framkvæmd dagana 3.-7. mars, sýndi um 47 prósent stuðning við aðild en um 33 prósent andstöðu.
Kenningar hafa verið settar fram um hvernig á þessum viðsnúningi í viðhorfum landsmanna til aðildar að Evrópusambandinu geti staðið og virðast margir á því að þessar sviptingar megi rekja til hernaðarbrölts Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í Úkraínu og samevrópskrar samstöðu með Úkraínu, sem hefur sótt um aðild að ESB frá því að Rússar réðust inn.
Hvað sem slíkum kenningum líður um stöðu mála hér á landi virðist þó ljóst að þær eiga ekki við um frændur okkar Norðmenn, sem hafa rétt eins og Íslendingar að meirihluta verið gegn inngöngu í Evrópusambandið um lengri tíma.
Samkvæmt skoðanakönnun sem rannsóknafyrirtækið Kantar framkvæmdi fyrir norsku sjónvarpsstöðina TV2 á síðasta degi fyrsta degi febrúarmánaðar hefur innrás Rússa í Úkraínu ekki leitt til aukins stuðnings við aðild Noregs að ESB.
Samkvæmt könnuninni, sem sagt var frá í frétt TV2 1. mars voru 73,9 prósent Norðmanna, sem á annað borð tóku afstöðu, á því að Noregur ætti ekki að sækja um aðild að ESB. Á móti sögðu 26,1 prósent þeirra sem afstöðu tóku að Noregur ætti að sækja um aðild. Könnun TV2 náði til 527 einstaklinga og voru svör þeirra sem tóku ekki afstöðu í aðra hvora áttina ekki tekin inn í útreikningana, en ekki er tekið fram í frétt miðilsins hve mörg þau voru.
Meiri andstaða við NATO-aðild hérlendis en í Noregi (en samt lítil)
Í könnun Kantar fyrir TV2 var einnig spurt út í aðild Norðmanna að Atlantshafsbandalaginu. Samkvæmt niðurstöðunum mælist hann nú í hæstu hæðum, en af þeim sem tóku afstöðu í aðra hvora áttina vilja tæp 96 prósent vera áfram í NATÓ en rúm 4 prósent Norðmanna segja sig úr bandalaginu.
Samkvæmt áðurnefndum Þjóðarpúlsi Gallup eru 75 prósent Íslendinga hlynnt aðild að NATO, en andstaðan við veru Íslands í bandalaginu mælist um 9 prósent. Færri eru andvígir veru Íslands í NATO samkvæmt þessum þjóðarpúlsi Gallup en sambærilegum könnunum sem fyrirtæki gerði árin 2001 og 2003, en þá voru um 13-14 prósent gegn veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu.
Meirihluti væntra kjósenda Vinstri grænna hlynntur NATO-aðild
Þetta er þó ekki eina könnunin sem hefur birst á afstöðunni til Atlantshafsbandalagsins hérlendis. Ný könnun Prósents, sem fjallað var um í Fréttablaðinu á föstudag, sýndi samkvæmt frétt blaðsins að um helmingur Íslendinga væru hlynnt aðild að NATO.
Í umfjöllun Fréttablaðsins var sérstaklega dregið fram að afstaða þeirra sem segjast ætla að kjósa Vinstri græn – þann flokk í íslenskum stjórnmálum sem sögulega hefur kennt sig við NATÓ-andstöðu – í garð NATO-aðildar Íslands væri nú fremur jákvæð. Samkvæmt þeim tölum sem blaðið birti voru 49 prósent væntra kjósenda VG hlynnt veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu.
Hvort það hafi eitthvað með atburði undanfarinna vikna að gera er alls óvíst.