Óheimilt verður að skipa í embætti ráðuneytisstjóra með flutningi og flutningur annarra embættismanna verður undantekning frá almennri meginreglu um auglýsingaskyldu.
Þetta eru meðal tillagna lagafrumvarps um breytingu á lögum um stöðuveitingar sem útbýtt verður á Alþingi á næstunni. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Breytingarnar snúa að 36. grein laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1996, greinar sem ítrekað hefur verið beitt við skipan embættismanna upp á síðkastið, síðast af Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, þegar hún skipaði þjóðminjavörð án auglýsingar.
Þannig verði óheimilt með öllu að skipa í embætti ráðuneytisstjóra með flutningi og ítrekað að flutningsheimild 36. greinar laganna verði undantekning frá almennri meginreglu um auglýsingaskyldu.
Flutningur ríkisendurskoðanda í starf ráðuneytisstjóra ógn við sjálfstæði eftirlitsstofnana á vegum Alþingis
Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um að dómarar, embættismenn við dómstóla og dómstólasýsluna og embættismenn sem starfa á vegum Alþingis og eftirlitsstofnana þess, þ.e. skrifstofustjóri Alþingis, umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi, verði með öllu undanskildir ákvæðinu.
„Þannig verði tekinn af allur vafi um að ákvæðið heimilar ekki flutning milli hinna þriggja valdþátta ríkisins og tekur aðeins til flutnings embættismanna á vegum framkvæmdarvaldsins,“ segir í frumvarpsdrögunum.
Þar segir jafnframt að með þessum breytingum er verið að bregðast við „því hættulega fordæmi“ sem sett var í upphafi þessa árs þegar Skúli Eggert Þórðarson, þáverandi ríkisendurskoðandi, var fluttur yfir til nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis og skipaður þar ráðuneytisstjóri með vísan til 36. greinarinnar. „Slík beiting ákvæðisins er ógn við sjálfstæði þeirra eftirlitsstofnana sem starfa á vegum Alþingis sem liður í eftirlitshlutverki þess gagnvart framkvæmdarvaldinu,“ segir í frumvarpsdrögunum.
Sjö af tólf ráðuneytisstjórum ráðnir án auglýsinga
Ráðuneytisstjórar eru æðstu stjórnendur ráðuneyta að ráðherrum sjálfum undanskildum. Ráðuneytum var fjölgað úr tíu í tólf við endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfs Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í lok síðasta árs.
Sjö af tólf núverandi ráðuneytisstjórum voru fluttir í embætti ráðuneytisstjóra án þess að staðan væri auglýst og frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við árið 2017 hafa sex af þeim níu sem enn eru ráðuneytisstjórar tekið við embætti án þess að faglegt umsóknarferli færi fram.
Í samantekt forsætisráðuneytisins yfir flutning embættismanna milli embætta á tímabilinu 2009 til 2022, sem birt var á vef Stjórnarráðsins í gær, kemur fram að hlutfallslega flestir flutningar áttu sér stað þegar skipað var í embætti ráðuneytisstjóra. Alls voru átta ráðuneytisstjórar skipaðir í kjölfar auglýsingar á tímabilinu en ellefu embættismenn voru fluttir í embætti ráðuneytisstjóra. Tveir af þeim flutningum voru gerðir á grundvelli breytinga á skipan ráðuneyta.
Fimmtungur embættisskipana frá 2009 voru gerðar án auflýsingar. Í samantektinni kemur fram að 267 embættisskipana af 334 síðustu 12 ár voru gerðar í kjölfar auglýsingar en í 67 tilfellum var embættismaður fluttur í annað embætti, ýmist á grundvelli flutningsheimildar í lögum um Stjórnarráð Íslands eða sérstakra lagaheimilda. Í 39 tilfellum af 67 þar sem embættismaður var fluttur í annað embætti, var það gert í tengslum við breytingar á skipulagi stofnana eða ráðuneyta.
Breytingarnar lagðar fram til að bregðast við freistnivanda
Í greinargerð frumvarpsbreytinganna segir að litið hefur verið á auglýsingaskylduna sem mikilvæga vörn gegn geðþóttastjórnsýslu og klíkuráðningum, leið til að auka gagnsæi og traust gagnvart handhöfum opinbers valds.
Í niðurlagi greinargerðarinnar er vísað í orð Ólafs Jóhannssonar, lagaprófessors og fyrrum forsætisráðherra, sem hann ritaði fyrir rúmlega 70 árum og sagði að að sjaldan væri meiri áhættu á misbeitingu valds og hlutdrægni en við stöðuveitingar. „ Nú á tímum er hið raunverulega veitingarvald oftast nær í höndum pólitískra ráðherra, sem freistast oft til að misnota það til framdráttar flokksmönnum sínum,“ skrifaði Ólafur.
Í frumvarpsdrögunum kemur fram að breytingarnar eru lagðar fram til að bregðast við þessum freistnivanda, „setja veitingarvaldshöfum auknar skorður og auka traust landsmanna gagnvart stjórnkerfinu“.
Engir þingfundir eru fyrirhugaðir í vikunni vegna kjördæmadaga. Næsti þingfundur er á dagskrá eftir viku og ætla má að frumvarpinu verði útbýtt þá.