Vikan frá 17. ágúst til dagsins í dag er mesta lækkunarvika á mörkuðum frá því árið 1986, eða í næstum þrjátíu ár, sé horft til verðbréfamarkaða og hrávara í senn. Olían hélt áfram að lækka og var olíuverðið í lok dags á föstudag komið niður fyrir 40 Bandaríkjadali á tunnuna. Frá því í júní hefur það lækkað um 35 prósent. Samhliða lækkuðu hlutabréfavísitölur um allan heim, meðaltali um nálægt sjö prósent.
Barist um markaðshlutdeild
„Það er augljóst að stórir olíuframleiðendur eru að berjast um markaðshlutdeild, þar á meðal Rússar, Sádi-Arabar og Bandaríkjamenn,“ segir John Kilduff, sérfræðingur hjá Again Capital LLC vogunarsjóðnum í New York, í samtali við Bloomberg.
Því er spáð að olíuverð muni haldast lágt, eða í lægri kantinum, á þessu ári þar sem ójafnvægi eru töluvert milli framboðs og eftirspurnar í heimsbúskapnum. Þrátt fyrir að dregið hafi úr eftirspurn hefur framleiðsla ekki dregist saman nema að litlu leyti, sem þrýstir verðinu frekar niður á við, að því er segir í frétt Bloomberg.
Commodities Coffee -9.1% Oil -6.6% Natural Gas -4.9% Bloomberg C Index -2.8% Copper -2.7% Silver +0.5% Iron Ore -1.1% Corn +0.5% Gold +4.3%
Auglýsing
— Lawrence McDonald (@Convertbond) August 23, 2015
Getur dregið úr verðbólgu hér á landi
Olíuverð hefur mikil áhrif á gang mála á hrávörumörkuðum, og verðlagningu á öðrum vörum þar sem olíu þarf til framleiðslu, svo dæmi sé tekið. Þannig tengjast verðsveiflur á olíu verði á ýmsum vörutegundum. Gera má ráð fyrir að þessar hröðu verðlækkanir á olíu, um 35 prósent á tveimur mánuðum, eigi að einhverju leyti eftir að koma fram í verðlagi á Íslandi, einkum á innfluttum vörum. Á innan við ári hefur tunnan af olíu fallið í verði úr 110 Bandaríkjadölum niður í 40 nú. Verðþróunin eins og hún er nú setur þrýsting verðlag niður á við, en verðbólga mælist 1,9 prósent þessa dagana, undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans.